Á mánudag varð Eistland aðeins annað landið í Austur-Evrópu til að heimila giftingar samkynja para. Löggjöfin var samþykkt í sumar á eistneska þinginu með 55 atkvæðum gegn 34.
Þar með er Eistland orðið fyrsta landið af Eystrasaltsríkjunum til að heimila giftingar samkynhneigðra og fyrsta landið í fyrrum Sovétríkjunum.
„Þetta er mikilvæg stund og sýnir að Eistland er hluti af Norður-Evrópu,“ sagði Keio Soomelt, verkefnisstjóri Baltic Pride við breska dagblaðið The Guardian.
Frá árinu 2013 hafa samkynhneigðir geta gengið í staðfesta samvist eins og heimilt er í nokkrum öðrum löndum Austur-Evrópu. Flest lönd Vestur-Evrópu hafa heimilað giftingar samkynhneigðra en í austrinu eru það aðeins Eistland og Slóvenía.
Í mörgum löndum, svo sem Rússlandi, Úkraínu, Póllandi, Ungverjalandi, Búlgaríu og Serbíu er það bundið í stjórnarskrá að hjónaband geti aðeins verið á milli karls og konu.