Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir, þingmaður Viðreisnar, segir óboðlegt hvað málsmeðferðartími kynferðisbrota í kerfinu er langur. Hún fagnar nýrri #metoo-bylgju en upplifir að væntingar til breytinga séu minni en áður. Jafnréttismál hafa litað allan hennar starfsferil og gera enn á þingi. Þ0rbjörg er heimakær, finnst gaman að skrifa og er stoltur stofnandi aðdáendaklúbbs Ruth Bader Ginsburg.
Helgarviðtal DV við Þorbjörgu Sigríði má lesa hér í heild sinni en það er einnig aðgengilegt umbrotið á PDF-formi með því að smella hér.
Myndir: Ernir Eyjólfsson
Förðun: Elín Reynisdóttir
Þakkir: Petersen svítan
„Þegar ég var lítil stelpa þá langaði mig að verða dómari. Ég hafði séð í sjónvarpinu hvernig dómarar voru með hamar sem þeir slógu í borðið og fannst það áhrifamikið og spennandi. Ég sé dómsalinn sem ákveðið leikhús í fallegri merkingu þess orðs, þar sem allir eru í ákveðnu hlutverki og strangar reglur um hvernig fólk hagar sér,“ segir Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir, þingkona Viðreisnar.
Það varð úr að hún starfaði mikið í dómssölum, þó ekki sem dómari heldur sem saksóknari þar sem kynferðisbrotamál voru hennar sérsvið. Hún hefur einnig starfað sem deildarstjóri ofbeldisbrotadeildar lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu, aðstoðarmaður dómara í Héraðsdómi Reykjavíkur, deildarforseti lagadeildar Háskólans á Bifröst og sem aðstoðarmaður félags- og jafnréttismálaráðherra.
Þorbjörg tók sæti á Alþingi í apríl á síðasta ári eftir að Þorsteinn Víglundsson ákvað að hætta á þingi og hverfa til annarra starfa. Hún hafði tekið þátt í starfi flokksins frá upphafi og var í framboði bæði fyrir alþingiskosningarnar 2016 og 2017.
Hún er fædd í Reykjavík árið 1978 en segist mótuð af því að hafa þriggja ára flutt til Svíþjóðar þar sem pabbi hennar fór í doktorsnám í guðfræði og mamma hennar nam hagfræði. „Það var stórt Íslendingasamfélag þarna úti og sex íslenskir krakkar í bekknum mínum,“ segir hún en fjölskyldan flutti aftur til Íslands, nánar tiltekið á Seltjarnarnes, þegar hún var tíu ára.
Óorð varð til refsilækkunar
Þorbjörg lauk stúdentsprófi frá fornmáladeild Menntaskólans í Reykjavík þar sem hún lærði meðal annars latínu. „Það er kannski heiðarlegra að segja að ég hafi verið í latínu,“ segir hún kímin. „Ég velti fyrir mér að fara eftir það í háskólanám í íslensku eða bókmenntafræði en hafði áhyggjur af því að það væri svo mikið að lesa í bókmenntafræðinni, sem er fyndið í ljósi þess að ég fór svo í lögfræði. Ég tengdi lögfræðina við stjórnmálafræði sem hluta af ákveðnum samfélagsfræðum. Fyrsta árið fannst mér mjög skemmtilegt, síðan komu kaflar þar sem ég viðurkenni að mér fannst námið dauðanum leiðinlegra en kláraði námið. Ég skrifaði meistararitgerð í refsirétti og skrifaði þá um afbrotið nauðgun.“
Hún útskrifaðist árið 2005 þegar umræðan um kynferðisbrot var á allt öðrum stað en hún er í dag. Sama ár kom út bókin „Myndin af pabba: Saga Thelmu“ eftir Gerði Kristnýju þar sem hún sagði sögu Thelmu Ásdísardóttur sem ólst upp við kynferðislegt ofbeldi af hálfu föður síns og annarra barnaníðinga. Bókin hafði mikil áhrif og opnaði umræðu um þessi mál í íslensku samfélagi. Þangað til höfðu bæði þolendur og gerendur verið ósýnilegir í allri umfjöllun og fréttaflutningur sömuleiðis með öðrum hætti en nú.
Í meistararitgerðinni skoðaði hún til að mynda hvernig nauðgun hefur verið skilgreind í lögum frá upphafi. „Fyrstu hegningarlögin okkar eru frá 1869. Þar er skýrt að nauðgun varðar við refsingu en þar kom líka skýrt fram að ef það var óorð á konu þá megi lækka refsingu um allt að helming. Þarna kemur mjög skýrt fram sú hugmynd að við nauðgun verði ákveðið tjón en það tjón sé í því fólgið að konan sem er brotið á sé minna virði á eftir. Það voru síðan gerðar breytingar á hegningarlögum en mér fannst svo undarlegt að nauðgun væri fyrst og fremst skilgreind út frá því hvernig nauðgunin væri framin. Frekar en að áherslan væri á að brotið hefði verið gegn kynfrelsi viðkomandi var þunginn allur á því hvernig nauðgunin var framin, hvort nauðguninni fylgdi svona ofbeldi eða hinsegin, hvort verið væri að misnota sér þroska eða andlegt ástand þolanda. Í nauðgunarákvæðið sjálft hreinlega vantaði grundvallarhugtök sem þó eru almennt til grundvallar í löggjöf, eins og frelsi, sjálfstæði og friðhelgi.“
Eftir stofnun Viðreisnar og þegar Jón Steindór Valdimarsson settist á þing hafði hann samband við Þorbjörgu og saman unnu þau frumvarp um breytingu á nauðgunarákvæðinu þar sem krafa um samþykki er sett í forgrunn og að án samþykkis sé um nauðgun að ræða. Þessi breyting varð að lögum árið 2018 og markaði mikil tímamót.
Hún man þó vel eftir umræðu um að varhugavert væri að fara þessa leið og einhverjir sneru út úr með spurningum á borð við hvort nú þurfi ekki hreinlega að þinglýsa skriflegu samþykki fyrir samfarir því annars megi menn eiga von á því hvenær sem er að vera sakaðir um nauðgun.
„Þetta er grundvallarbreyting á því hvernig við nálgumst nauðgun út frá lagabókstafnum. Ég held að þetta sendi líka mikilvæg skilaboð út í samfélagið um hvernig við nálgumst kynlíf og mörk, að það þarf að fá já. Það er algengt stef í framburði , sérstaklega þar sem gerandi og þolandi eru ungt fólk, að maðurinn segi að konan eða stelpan hafi aldrei sagt nei. En þegar nánar er spurt hvað hafi gefið honum til kynna að þolandi hafi verið samþykk koma lýsingar sem ég held að allt samfélagið í dag kannist við. Konur og stelpur, því oftast eru þetta konur, segjast hafa upplifað hræðslu, ótta og vantrú á því sem var að gerast. Kannski er þetta einhver sem þær þekkja, þykir vænt um eða eru jafnvel skotnar í, og síðan tekur við þessi óraunverulega atburðarás. Þær segja: Ég bara fraus. Þeir segja: Hún sagði aldrei nei. Ég held að krafan um samþykki hafi jákvæð áhrif, ekki bara í dómsalnum heldur ekki síst úti í samfélaginu.“
Óvissan eykur á kvíða
Þorbjörg segir jákvætt merki að kynferðisbrotamálum fjölgi á borði lögreglu. „Það hljómar auðvitað ekki vel, en þetta er vísbending um að þolendur treysta sér til að kæra, þrátt fyrir umfjöllun um að það sé erfitt að koma þessum málum í gegn um kerfið. Við höfum líka reglulega séð að mál sem enda með sakfellingu í héraðsdómi, kannski tveggja, þriggja eða fjögurra ára dóm, er vísað til Landsréttar þar sem menn fá vægari dóm, jafnvel árs afslátt af dómnum eða dómurinn er skilorðsbundinn. Það er slæmt, fyrir þolendur og samfélagið allt
Í flestum tilfellum er refsing milduð í Landsrétti með vísan til langs meðferðartíma mála í kerfinu. „Mér hefur svona fundist Landsréttur vera strangari en Hæstiréttur var hvað þetta varðar, og milda dóma með vísan til langs málsmeðferðartíma þar sem Hæstiréttur tiltók kannski að málsmeðferðartími hafi verið langur en brotið engu að síður svo alvarlegt að refsingin standi. Málsmeðferðarreglan er grundvallarregla, það er réttur fólks og réttur sakbornings að þurfa ekki að bíða lengi eftir niðurstöðu máls og þetta er atriði sem dómstólar eiga að líta til.
Hér þurfa stjórnvöld þess vegna að bregðast markvisst við og tryggja að málin fari hraðar í gegn. Þegar fólk er búið að upplifa það stóra áfall sem nauðgun og kynferðisbrot eru, og hefur ákveðið að leggja fram kæru, þá er slæmt að málsmeðferðin sjálf eykur enn á kvíða og vanlíðan og að þurfa jafnvel að bíða kannski í tvö ár eftir niðurstöðu dómstóla – tvö heil ár af lífi sínu í óvissu.“
Að mati Þorbjargar þarf ekki að vera flókið að leysa þetta tiltekna vandamál. „Ég hef átt nokkur samtöl við dómsmálaráðherra um þetta í þingsal, hvatt hana til að bregðast við og finnst þetta ekki vera nein geimvísindi. Ef málum er að fjölga hjá lögreglunni og hjá saksóknara þá þarf að fjölga í starfsliði þessara stofnana og gera því fólki kleift að vinna hratt en líka vel. Það vantar pólitíska afstöðu um að þessi mál eigi skilið að vinnast hratt. Ég þekki vel umræðuna um kynferðisbrot séu í forgangi. Ég var til dæmis fyrst og fremst með kynferðisbrot á mínu borði. Hver á þá forgangsröðunin að vera? Átti ég að vinna nauðgunarmálið á undan málinu sem var um misnotkun barns eða átti heimilisofbeldismálið að bíða? Þegar öll mál eru í forgangi er lítið á bak við þá reglu.“
Fyrsta frumvarpið sem Þorbjörg lagði fram eftir að hún settist á þing snerist um aukna vernd fyrir börn gegn dreifingu á barnaníðsefni. Málið hlaut ekki brautargengi, þrátt fyrir að hafa bæði vakið mikla jákvæða athygli og að þingmenn allra flokka hafi tekið þátt í að leggja frumvarpið fram, en Þorbjörg var fyrsti flutningsmaður þess. Hún gagnrýndi það síðar í aðsendri grein á Visir.is þegar dómsmálaráðherra lagði fram frumvarp sem var „nánast það sama“ og frumvarpið sem hafði legið ofan í skúffu mánuðum saman en grein Þorbjargar bar yfirskriftina „Sama hvaðan gott kemur?“
Minni væntingar í nýrri #metoo-bylgju
Þorbjörg segist alltaf hafa verið pólitísk. Það hafi orðið þess valdandi að hún ákvað að skrifa um nauðganir í meistaraverkefninu sínu. Hún fór síðan til Bandaríkjanna í framhaldsnám og útskrifaðist frá Columbiaháskóla 2011. Í lokaverkefninu þar fjallaði hún um meðferð stríðsglæpadómstólsins um nauðganir í fyrrum Júgóslavíu og Rúanda. „Það var ekki fyrr en níu mánuðum eftir þjóðarmorðið í Rúanda sem Læknar án landamæra tóku eftir gríðarlegri aukningu á þungunum og þannig komst kynferðisbrotin raunverulega í umræðuna.“
Hún hefur setið í stjórn Kvennaathvarfsins, landsnefndar Unifem á Íslandi og Bjarkahlíðar, miðstöðvar fyrir þolendur ofbeldis, auk þess að hafa setið í fagráði Þjóðkirkjunnar um meðferð kynferðisbrotamála.
Einhverjum gæti dottið í hug að persónuleg reynsla hefði leitt til þess að hún tileinkaði svo stóran hluta ferilsins því að vinna í málaflokknum en hún segir svo ekki vera heldur hafi það jafnréttistaugin sem leiddi hana áfram. „Það er engin alvarleg lífsreynsla sem varð þess valdandi að ég vildi vinna í þessum málaflokki. Ég er hins vegar meðvituð um að þessi brot eru fáránlega algeng.“
Henni finnst merkilegt að ný #metoo-bylgja standi nú yfir. „Mér finnst sterkt og jákvætt hversu margir þolendur treysta sér til að koma fram undir nafni og segja sína sögu. Þetta er mikil breyting. En ég upplifi líka að konur séu þreyttar, þreyttar yfir því að þurfa að ganga í gegn um aðra bylgju og vegna viðbragða sumra sem enn segjast vera hissa á því hvað það sé algengt að konur verði fyrir kynbundnu ofbeldi. Það fallega og bjarta sem er nú að eiga sér stað er að þolendur virðast óhræddari en áður að segja sína sögu en það svarta er að ég upplifi að það séu minni væntingar um raunverulegar breytingar. Síðast voru gríðarlega væntingar en tónninn núna er annar.“
Efnahagsmál eru daglegi veruleikinn
Kosið verður til Alþingis í haust og Þorbjörg brennur fyrir því að vinna áfram fyrir þjóðina. „Verkefni stjórnmálanna undanfarið ár hafa snúist um þetta tímabundna ástand vegna heimsfaraldursins, þetta erfiða en tímabundna ástand. Næsta skref er síðan samtalið um framtíðarsýn fyrir Ísland. Lykilspurningin þar er stór en skýr: Hvernig viljum við sjá Ísland dafna og vaxa sem samfélag?
Stærsta kosningamálið verður eflaust efnahagsmálin, sem er einn mikilvægasti þátturinn um það hvernig við svörum þessari spurningu. En efnahagsmálunum er stundum stillt upp þannig að samhengið er fjarlægt. Það er auðvitað þannig að þegar við tölum um efnahagsmál, þá erum við að tala um daglegan veruleika fólks, lífskjör fólks og umhverfi atvinnulífs. Verkefni ársins 2021 er enn hið sama og ársins 2020; að veita fólki og fyrirtækjum svigrúm til að lifa af efnahagslegar afleiðingar heimsfaraldurs. Þannig verður viðspyrnan kraftmeiri núna þegar hjólin fara að snúast að nýju. Verkefni ársins 2021 um leið að vera það að leggja grunn að því að næsti kafli í sögu þjóðarinnar verði annar og betri. Á næstu árum verður lykilspurning stjórnmálanna svo hvernig auka á verðmætasköpun. Kosningarnar munu snúast um framtíðarsýn fyrir Ísland og fólkið í landinu.“
Það bar brátt að þegar hún settist á þing í fyrra. „Ég fékk góða fimm daga til að ákveða hvort ég vildi taka sætið. Mér hafði alltaf fundist vanta stjórnmálaflokk sem hafði frjálslyndi að leiðarstefi og Viðreisn er frjálslyndur jafnréttissinnaður flokkur með alþjóðlega sýn. Ég var mjög ánægð í mínu fyrra starfi og því blasti kannski ekki við að skipta um starfsvettvang með svo skömmum fyrirvara en ég fann að þetta kitlaði og ég er mjög ánægð með að hafa slegið til.“
Hún segist sjá ákveðin líkindi á milli dómsalsins og þingsalsins. „Ég vann við að standa í púlti og flytja mál. Þess vegna finnst mér svolítið áhugavert og fyndið hvað ég upplifði púltið í þingsalnum ógnvekjandi og fannst erfitt að halda fyrstu ræðurnar. Þetta er allt annað leikhús en dómsalurinn. Ég er líka meðvituð um að þeir sem hlusta í salnum eru auðvitað ekki manni endilega hliðhollir, ekki skoðanasystkin. Verjandi er heldur ekki endilega vinveittur saksóknara en mér fannst þetta samt vera annað. Ég er stolt af þessu starfi og ber mikla virðingu fyrir þinginu. Ég tek þingmennskuna mjög alvarlega,“ segir hún og bætir hlæjandi við: „Ég sakna þess þó aðeins að mega ekki vera í skikkjunni minni.“
Hún segir margt hafa komið sér á óvart við þingstarfið, jafnvel þó hún hafi verið þátttakandi í pólitík áður, til dæmis í stúdentapólitík, verið oddviti Vöku, starfað sem aðstoðarmaður ráðherra, varaþingmaður og verið virk í starfi Viðreisnar frá upphafi.
„Mest kom mér á óvart hvað það er lítil festa í starfsskipulaginu og að kvöldi sé maður oft fyrst að átta sig á hvernig næsti dagur lítur út. Mér finnst stundum ógnvekjandi hvað mál fara hratt í gegn um þingið. Hér eru það miklir hagsmunir undir að mér finnst þingið þurfa að skoða þetta vinnulag. Þingmenn eru síðan jafnvel á kvöldin og nóttunni að kjósa um mál sem þeir hafa ekki haft tíma til að setja sig almennilega inní . Ég hef stundum á tilfinningunni að vinnulagið sé eins og þegar kaka er tekin allt of snemma út úr ofninum þannig að hún er enn hrá.“
Lætin ekki alltaf árangursríkust
Í einkalífinu segir Þorbjörg vera mjög heimakær og líði vel þegar hún er heima með stelpunum sínum, en hún á þrjár dætur á aldrinum átta til átján ára. „Ég les en finnst líka gott að slökkva á hausnum á kvöldin með því að horfa á sjónvarpsseríur. Svo hef ég reyndar líka gaman af því að skrifa. Sú baktería kviknaði strax á háskólaárunum þegar ég kynntist blaðamennsku. Ég var blaðamaður á DV á sumrin og þar fékk ég einhverja bakteríu sem ég hef ekki losnað alveg við. Hefði vel getað hugsað mér þann starfsvettvang. Ég skrifaði síðan pistla í nokkur ár í Fréttablaðið og hafði mjög gaman af því. Fyrir nokkrum árum var ég byrjuð á barnabók, á sögu sem var hugsuð fyrir stelpurnar mínar. Við fluttum til Bandaríkjanna í nokkur ár og ég sagði þeim þá sögu um upplifun tveggja systra af því að flytja til annars lands og öll ævintýrin sem þeirri breytingu fylgir.“
Þá er Þorbjörg afar hrifin af Ruth Bader Ginsburg heitinni, fyrrverandi hæstaréttardómara í Bandaríkjunum. Raunar svo hrifin af hún stofnaði sérstakan aðdáendaklúbb ásamt Maríu Rún Bjarnadóttur og hafa verið haldnir fundir í Ginsburg-félaginu.
„Hún höfðar sterkt til mín. Hún var fyrst lögmaður og svo dómari. Bill Clinton skipaði hana í hæstarétt árið 1993. Þrátt fyrir að hafa átt fjölda dóma sem breyttu miklu fyrir bandarískt réttarfar var hún gagnrýnd fyrir að vera ekki nógu róttæk í jafnréttismálum. Mér fannst ég geta tengt við það sem lögfræðingur því fagið er eins og það er. Hún sagðist sem lögmaður hafa reynt að velja sér lítil og táknræn mál sem væru samt líkleg til að hafa víðtæk áhrif. Hún valdi sér til dæmis jafnréttismál sem sneri kannski að réttindum föður og hvort hann ætti rétt á umönnunarbótum til að sinna veikum maka eða veiku barni. Málið vannst og allt í einu voru konur um leið farnar að fá greiðslu fyrir áður ólaunuð störf inni á heimilinu.
Hún talaði líka um að taka eitt skref í einu innan dómskerfisins því þegar stökkin eru tekin væri líklegra að það verði bakslag í næsta máli. Hún var praktísk en strategísk, ekki alltaf mjög djúsí, en þegar ferillinn hennar er skoðaður sést hvað hún áorkaði gríðarlega miklu. Ég tengi við að það séu ekki alltaf mestu lætin sem skila bestum árangri,“ segir Þorbjörg og spyr síðan áður en hún skellir upp úr: „Hljóma ég eins og leiðinlegasta manneskja í heimi?“
Ginsburg var þekkt fyrir kragana sem hún bar utan yfir skikkjuna. „Mig langar að halda fund um kragana hennar. Það er rosalegur þungi í öllu sem þessi litla kona gerði en allt var þetta matreitt svo fagmannlega. Upphaflega bar hún kragana til að sýna að hún væri kona en síðan fer hún að nota þá á enn táknrænni hátt og jafnvel hægt að sjá af því hvernig kraga hún valdi þann daginn hvort hún var í meirihluta eða minnihluta í dómnum.“
Þorbjörg rifjar upp þegar hún tók þátt í leynivinaleik fyrir síðustu jól ásamt vinkonum sínum og hún fékk að gjöf heimasaumaða sóttvarnagrímu í anda Ginsburg, svarta með hvítri blúndu. „Mér fannst þetta algjörlega geggjuð gríma enda vita vinkonur mína að ég elska þessa konu. Ég mætti montin með grímuna í þingsal en sessunautur minn, Andrés Ingi Jónsson, horfði hugsi á mig í smá stund og sagði síðan að það væri kannski dálítið eins og ég væri með nærbuxur í andlitinu. Eftir þetta sá ég ekkert nema nærbuxur út úr þessu, tók hana niður og setti hana ekki upp aftur,“ segir hún og hlær.