Handboltamaðurinn og spekingurinn Kári Kristján Kristjánsson var gestur Helga Fannars og Hrafnkels Freys í nýjasta þætti af Íþróttavikunni, sem kemur út í hverri viku á DV.
Það var að sjálfsögðu hitað upp fyrir leik íslenska karlalandsliðsins í handbolta gegn Króatíu á HM í kvöld. Ísland hefur unnið alla leiki sína á mótinu til þessa og er með 6 stig á toppi síns milliriðils.
Króatar, sem eru á heimavelli í kvöld, eru með 2 stigum minna en Ísland og þurfa á sigri að halda í kvöld, en efstu tvö lið riðilsins fara í 8-liða úrslit.
„Maður er eitthvað hræddur við þetta. Þeir eru með bakið upp við vegg og með alla stuðningsmennina með sér,“ sagði Helgi í þættinum og Kári tók undir.
„Ég er sammála þér. Það er týpískt að nú verði fírað upp í 50 gráður í höllinni,“ sagði hann.
„Svo er það dómgæslan. Ég held að þeir fái að spila alveg ógeðslega fast á okkur. Fyrir mér er þetta 50/50. Stöðu fyrir stöðu erum við með miklu betra lið, en ég held að aðstæðurnar skipti miklu máli,“ sagði Kári enn fremur.