Íslenska karlalandsliðið í handbolta mætti Egyptalandi í kvöld í fyrsta leik liðanna í milliriðlum HM. Bæði lið komu með fullt hús stiga úr riðlum sínum inn í þennan leik.
Leikurinn var jafn til að byrja með en íslenska liðið seig smátt og smátt fram úr og leiddi með fjórum mörkum í hálfleik, 13-9.
Strákarnir okkar hleyptu Egyptum aldrei of nálægt sér í seinni hálfleiknum, en þar varð munurinn minnst þrjú mörk. Ísland sigldi svo fram úr áður en Egyptar minnkuðu muninn örlítið á ný. Lokatölur í leiknum 27-24.
Atkvæðamestur í liði Íslands í kvöld var Viggó Kristjánsson með 9 mörk. Viktor Gísli Hallgrímsson átti þá aðra flotta frammistöðu og varði hann 13 skot.
Maður leiksins í boði Olís er hins vegar Aron Pálmarsson, sem var stórkostlegur í kvöld. Gerði hann 8 mörk.
Eftir sigurinn er Ísland á toppi síns milliriðils og jafnframt eina liðið með fullt hús stiga, 6 stig. Möguleikarnir á 8-liða úrslitum eru orðnir ansi góðir.