Landsliðsmaðurinn Gísli Þorgeir Kristjánsson var til umræðu í Stofunni á RÚV eftir stórsigur Íslands á Grænhöfðaeyjum á HM í gær.
Logi Geirsson kom inn á það eftir leik að Snorri Steinn Guðjónsson og þjálfarar Íslands væru ekki að ná því besta út úr Gísla, sem er lykilmaður í stórliði Magdeburg í Þýskalandi. Gísli skoraði eitt mark í leiknum í gær en spilaði ekki ýkja stóran hluta leiksins.
„Það er eitt sem er farið að trufla mig. Gísli Þorgeir, hvernig getum við réttlætt það að vera með einn heitasta miðjumann í heimi, að spila í Bundesligunni, og að vera ekki að ná nægilega miklu úr honum? Það er líka hlutverk Snorra, í hvaða hlutverki er hann að fara að nota hann? Þetta er áhyggjuefni,“ sagði Logi eftir leik.
Ólafur Stefánsson var einnig í setti og hefur hann fulla trú á að Gísli finni sig á mótinu.
„Ég er með núll áhyggjur af Gísla. Ég hef fulla trú á Gísla með Janusi, þeim tveimur.“