Íslenska karlalandsliðið í handbolta er áttunda líklegasta liðið til að vinna HM, sem hefst í kvöld, samkvæmt veðbönkum.
Þó mótið hefjist í dag spilar íslenska liðið ekki fyrr en á fimmtudag, gegn Grænhöfðaeyjum. Liðið er einnig í riðli með Kúbu og Slóveníu, fremur fýsilegum andstæðingum og ef allt fer eftir bókinni er leiðin upp úr milliriðli og í 8-liða úrslitum raunhæf einnig.
Ríkjandi meistarar, Danir, eru taldir sigurstranglegastir samkvæmt veðbönkum. Þar á eftir koma Frakkar, Norðmenn, Svíar, Króatar, Þjóðverjar, Spánverjar og svo Ísland.
Íslenska liðið er þó ekki talið líklegra til að sigra riðilinn sinn samkvæmt veðbönkum, eru þar naumlega á eftir Slóvenum. Líklegasta niðurstaða Strákanna okkar samkvæmt veðbönkum er að detta úr leik í milliriðlum.