Á endanum varð það sex marka tap Íslands gegn Króötum sem gerði út um vonir strákanna okkar um sæti í 8-liða úrslitum. Dagur Sigurðsson, fyrrverandi landsliðsmaður, er sem kunnugt er þjálfari Króata og fékk hann kaldar kveðjur frá Íslendingum eftir leikinn.
Víðir skrifar pistil á íþróttasíður Morgunblaðsins í dag þar sem hann fer yfir þá staðreynd að Íslendingar séu þeirrar gæfu aðnjótandi að eiga handknattleiksþjálfara í fremstu röð í heiminum.
Nefnir hann til dæmis Guðmund Guðmundsson, Alfreð Gíslason og Dag Sigurðsson sem allir hafa unnið til verðlauna á stórmótum með öðrum þjóðum. Alfreð og Dagur eru til dæmis báðir komnir í 8-liða úrslit en Alfreð þjálfar þýska landsliðið. Svo segir hann:
„Dagur hefur fengið óverðskuldaðar og kaldar kveðjur frá mörgum Íslendingum eftir sigur Króata á íslenska liðinu síðasta föstudagskvöld. Meðal annars fyrir að gæta ekki að hagsmunum íslenska liðsins og vinna óþarflega stóran sigur á því! Dagur þjálfar lið Króatíu, ekki lið Íslands. Það þarf ekki að ræða það frekar.“
Víðir á von á hörkuleikjum í 8-liða úrslitum en er þó efins um að Króatar eða Þjóðverjar komist í úrslit.
„En nú má vel sjá fyrir sér bronsleik milli Króatíu og Þýskalands. Dagur gegn Alfreð. Íslensk rimma um bronsið? Megi þá sá betri vinna!“