Handboltamaðurinn og spekingurinn Kári Kristján Kristjánsson var gestur Helga Fannars og Hrafnkels Freys í nýjasta þætti af Íþróttavikunni, sem kemur út í hverri viku á DV.
Íslenska karlalandsliðið í handbolta var í aðalhlutverki í þættinum, en liðið er að gera frábæra hluti á HM, hefur unnið alla leiki sína til þessa og komið með annan fótinn í 8-liða úrslit. Vörnin hefur verið til fyrirmyndar og þar segir Kári einn mann fara fyrir hópnum.
„Ef Elvar Örn spilar ekki vörnina hjá okkur, þá erum við í algjöru veseni. Ég fer á bæn um að hann verði heill það sem eftir lifir móts. Hann er langbesti varnarmaður liðsins,“ sagði Kári.
„Ýmir og Elliði geta skipt. Ýmir er búinn að vera frábær og Elliði fínn. En ef Elvar dettur út, þá væri það vesen,“ sagði hann enn fremur.
Næsti leikur Strákanna okkar er gegn heimamönnum í Króatíu í kvöld.