Anna er þekkt fyrir skemmtilegar frásagnir á Facebook-síðu sinni og í morgun rifjaði hún upp þegar hún ferðaðist með íslenska karlalandsliðinu í handbolta árið 2004. Var þar einn leikmaður, umfram aðra, sem vakti athygli hennar.
„Þeir höfðu verið að spila í Evrópukeppni suður í Slóveníu og að því er mig minnir, töpuðu öllum leikjunum í riðlakeppninni og voru því sendir heim,“ segir Anna og hefur svo sannarlega rétt fyrir sér, en DV rifjaði einmitt þetta mót upp á dögunum.
„Þetta var fyrsta og eina skiptið sem ég hefi barið Sigfús Sigurðsson augum og hann virtist svo fyrirferðamikill að hann fyllti nánast út í farþegaplássið í flugvélinni og þrátt fyrir töpin virtist hann halda uppi móralnum hjá íslenska liðinu, sífellt hlæjandi og reitandi af sér brandarana. Síðan þá hefi ég verið hálfgerður aðdáandi hans sem handboltamanns,“ segir Anna.
Hún segir að það sé hálfgerð synd að hún hafi aldrei gert sér leið í fiskbúðina til að ná sér í nætursaltaðar gellur eða ýsuflök, en viðurkennir að það sé vissulega langt að fara.
Anna mun að sjálfsögðu halda áfram að styðja strákana okkar. „Ég verð að játa að þetta landslið Íslendinga í handbolta er alveg frábært,” segir hún og óskar strákunum til hamingju með leikinn í gær. „Haldið áfram svona!,” segir hún að lokum.