Íslenska karlalandsliðið í handbolta þykir ívið líklegra gegn Egyptum í fyrsta leik í milliriðli á HM í kvöld.
Strákarnir okkar flugu upp úr riðli sínum með fullt hús stiga, sem og Egyptar. Topplið milliriðilsins eru því að mætast í kvöld, en Ísland mætir þar einnig Króatíu og Argentínu.
Veðbankar telja að um jafnan leik verði að ræða í kvöld, en til að mynda er stuðull á sigur Íslands á Lengjunni 1,92. Stuðullinn á sigur Egypta er 2,04.
Ísland er þá almennt talið sjötta líklegasta liðið til að verða heimsmeistari samkvæmt veðbönkum nú þegar riðlakeppninni er lokið. Danir þykja langlíklegastir til sigurs á mótinu.
Leikur Íslands og Egypta í kvöld hefst klukkan 19:30 að íslenskum tíma og fylgist DV með gangi mála.