Ísland vann stórsigur gegn Kúbu í öðrum leik sínum á HM í handbolta í Króatíu. Lokatölur leiksins urðu 40:19 fyrir Ísland, eftir að staðan hálfleik hafði verið 21:19.
Íslensku strákarnir spiluðu hraðan sóknarleik allan tímann, vörnin var traust og markvarslan fín, sérstaklega í fyrri hálfleik.
Snorri Steinn Guðjónsson landsliðsþjálfari rúllaði vel liðinu og margir leikmenn tóku þátt. Allir lögðu sig fram og áttu góðan leik.
Fyrirliðinn Aron Pálmarsson, sem hefur átt við meiðsli að stríða, kom inn í byrjunarliðið og átti skínandi leik en hann lék þó aðeins fyrsta korterið í leiknum. Skoraði hann þrjú mörk á þeim tíma og átti nokkrar glæsilegar stoðsendingar.
Viktor Gísli Hallgrímsson átti stórbrotinn leik í markinu í fyrri hálfleik og varði 8 skot. Björgvin Páll Gústafsson kom inn á í hálfleik og varði nokkur skot í síðari hálfleik, þar á meðal eitt vítakast.
Leikur íslenska liðsins var betri og jafnari en í kaflaskiptum leik gegn Grænhöfðaeyjum á fimmtudaginn. Vekur leikurinn vonir um að sigur náist gegn sterkum Slóvenum sem við mætum á mánudagskvöld.
Þeir Orri Freyr Þorkelsson, Þorsteinn Leó Gunnarsson og Elliði Snær Viðarsson voru markhæstir með fimm mörk hver.