Albert Guðmundsson, leikmaður Genoa kemur ekki til greina sem knattspyrnumaður ársins hjá KSÍ þetta árið. 433.is hefur fengið kjörseðilinn sem Leikmannaval KSÍ fékk í hendurnar en þar er nafn Alberts ekki að finna.
Nokkur hundruð einstaklingar sem eru í fótboltahreyfingunni eru með í kjörinu m.a. fyrrverandi landsliðsmenn, þjálfarar og forystumenn í knattspyrnuhreyfingunni.
Age Hareide, landsliðsþjálfari Íslands í knattspyrnu, hefur ekki mátt velja Albert í landsliðið undanfarna mánuði. Íslenska kona lagði fram kæru í sumar þar sem hún sakar Albert um kynferðisbrot.
Reglur KSÍ kveða á um að ef leikmaður er undir rannsókn lögreglu þá sé ekki leyfilegt að velja hann í landsliðið. 433.is sendi fyrirspurn á KSÍ um ástæðu þess að Albert kæmi ekki til greina sem knattspyrnumaður ársins.
Svörin voru á þá leið að sömu reglur væru í gildi um knattspyrnumann ársins og val í landsliðið, ekki væri í boði að kjósa leikmann sem væri grunaður um lögbrot. Hafa þessar reglur KSÍ þótt umdeildar, útiloka þær menn og konur frá verkefnum þegar ekki er búið að sanna að þau hafi eitthvað til saka unnið.
Albert hefur spilað frábærlega með Genoa undanfarnar vikur og verið einn besti leikmaðurinn í ítölsku úrvalsdeildinni. Líklega hefur enginn íslenskur knattspyrnumaður spilað betur en hann undanfarna mánuði.
Mál hans er nú hjá ákærusviði lögreglu sem tekur ákvörðun um hvort ákært verði í málinu eða það fellt niður. Albert hefur neitað sök í málinu.
Hér að neðan er kjörseðilinn um knattspyrnumann ársins sem 433.is fékk sendan, þar sést hverjir koma til greina þetta árið.