Viðar Halldórsson, formaður aðalstjórnar FH kveðst ekkert botna í bókun frá Hafnarfjarðarbæ sem sett var fram í gær. Bókunin snýst um fjármál aðalstjórnar og knatthúsið Skessuna. Forsagan er sú að Hafnarfjarðarbær ætlaði að byggja knatthús í Kaplakrika fyrir nokkrum árum en öll tilboð sem bárust í verkið voru í hærri kantinum. Aðalstjórn FH og Hafnarfjarðarbær gerðu þá með sér samning um að FH myndi byggja húsið.
Hafnafjarðarbær keypti eignir af FH í Kaplakrika og félagið fór sjálft í að byggja húsið. Frá Hafnarfjarðarbæ fékk félagið rúmar 800 milljónir en kostnaður við að byggja Skessuna var talsvert hærri.
Félagið fór því þá leið að taka lán fyrir byggingunni en vextir hafa frá þeim tíma hækkað mikið og afborganir FH-inga því talsvert hærri en reiknað hafði verið með. Viðar segir reksturinn á Skessunni þungan fyrir félagið í dag og mögulega hafi það verið röng ákvörðun hjá félaginu að taka á sig að byggja húsið.
Í bókun frá Hafnarfjarðarbæ lítur málið þannig út að skoða eigi öll fjármál FH vegna málsins en Viðar segir það af og frá. Honum hafi brugðið við að sjá bókunina í gærkvöldi og að hann hafi átt erfitt með að festa svefn eftir að hafa lesið hana. Enda er lítið annað hægt að lesa úr bókun bæjarins annað en að fjármál félagsins í heild verði skoðuð.
„Lagt er til að Hafnarfjarðarbær leiti til óháðs aðila til þess að fara yfir fjármál FH til að tryggja rekstur félagsins til framtíðar og meta virði knatthússins Skessunnar m.t.t. byggingarkostnaðar hússins og rekstur þess til framtíðar. Jafnframt er lagt til að Hafnarfjarðarbær verði við því erindi FH að greiða til félagsins sem svarar andvirði þeirra reikninga sem eru til greiðslu frá nóvember 2023 til janúar 2024 og verði þessar greiðslur hluti af fyrirhuguðum lokasamningi á milli FH og Hafnarfjarðarbæjar vegna knatthússins
Skessunnar. Allar greiðslur Hafnarfjarðarbæjar verða greiddar samkvæmt reikningum sem FH hefur tilgreint í erindi sínu til bæjarráðs og komnir eru á gjalddaga/eindaga. Ekki er heimilt að nota greiðslu Hafnarfjarðarbæjar til greiðslu annarra skuldbindinga FH. Hámarksgreiðsla í hverjum mánuði verður skv. greiðsluáætlun sem FH hefur lagt og fram og til þeirra aðila sem taldir eru upp í greiðsluáætluninni,“ segir í bókun frá bænum.
Viðar segir að í upphafi árs hafi FH-ingar leiðar til Hafnarfjarðarbæjar þar sem samningur um rekstur á mannvirkinu myndi ekki duga til lengur. Er það því í skoðun að bærinn kaupi húsið eða geri nýjan samning við félagið.
„Málið er nú þannig að við óskuðum eftir því snemma á þessu ári að ræða þetta mál, aðalstjórn FH á Skessuna. Við erum með lán á henni, aðalstjórn á fasteignir í Kaplakrika fyrir um 2,5 milljarð og Skessan er því um 1400 milljónir. Við skuldum rúmar 600 milljónir í þessum eignum. Við erum með afnotasamning við Hafnarfjarðarbæ sem hefur verið frá 2019 um Skessuna, þessi samningur er um 46 milljónir á ári. Út af þessum lánum þá hafa afborganir og vextir á þeim rokið upp. Lánið er allt á Skessunni og nú er svo að það vantar um 70 milljónir á ári til að standa við skuldbindingar, ef við miðum við innkomu vegna Skessunnar og útgjöld,“ segir Viðar sem segir af og frá að fjármál FH séu í ekki í lagi.
Viðar segir FH-inga hafa viljað byggja húsið enda hafi verið þörf á því, því hafi félagið frekar viljað gera þetta svona og taka fyrir því lán. Mögulega hafi það verið röng ákvörðun hjá þeim sem ráða í FH.
„Það er í raun galið að við séum að rembast við að eiga fasteign, öll önnur íþróttamannvirki sama hvort það sé í Hafnarfirði eða í öðrum sveitarfélögum eru í eigu bæjarfélagsins. Við báðum um viðræður um að þeir keyptu Skessuna. þetta hefur tekið þessu mánuði en er komið langt. Það þarf að finna verð á hana. Þetta er svo vitlaus bókun að það tekur engu tali.“
„Það er eins og það eigi að fara að skoða öll fjármál FH, það á að athuga með rekstrarsamning á Skessunni og verðmat á henni. Þannig liggur nú málið,“ segir Viðar sem segist bíða eftir símtali frá formanni bæjarráðs til að útskýra þessa bókun. Hann segist hafa heyrt frá öðrum í bæjarstjórn sem segja bókunina ekki koma rétt út, miðað við efni hennar og viðræður FH og bæjarins.
Greinargerð um málið.
Hafnarfjarðarbær óskaði eftir því að eftirlitsnefnd með fjármálum íþróttafélaga skoðaði fjármál Fimleikafélags Hafnarfjarðar (FH) vegna beiðni þeirra um að annað hvort yrði gerður afturvirkur leigusamningur sem gerir félaginu kleift að standa undir fjárhagslegum skuldbindingum sínum eða þá að Hafnarfjarðarbær kaupi Skessuna af félaginu.
Nefndin lagði til að óháður aðili yrði fenginn til þess að fara yfir fjármál FH til að tryggja rekstur félagsins til framtíðar og virði knatthússins Skessunnar m.t.t. byggingarkostnaðar hússins og rekstri þess til framtíðar.
Þessi aðili myndi síðan koma með greiningu á áhrifum þess ef bærinn keypti knatthúsið, gerði afturvirkan leigusamning eða eitthvað annað s.s. kaupleigu og rökstudda tillögu til bæjarráðs varðandi hvaða leið skuli fara varðandi beiðni FH.
Þar sem greining óháðs aðila á fjármálum FH og virði knatthússins mun taka einhvern tíma í vinnslu, þá sendi FH bæjarráði erindi, þann 14. nóvember sl., þar sem FH óskaði eftir því að Hafnarfjarðarbær greiði FH kr. 120.331.000,- sem innágreiðslu á væntanlegan samning um knattspyrnuhúsið Skessuna.