Baldur Logi Guðlaugsson hefur gengið til liðs við Stjörnuna frá uppeldisfélaginu sínu FH. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Stjörnunni.
Baldur Logi er sóknarmaður sem er fæddur árið 2002 og hefur leikið fyrir FH allan sinn feril. Hann hefur spilað 55 leiki í efstu deild og skorað í þeim 4 mörk. Einnig á hann að baki 17 landsleiki fyrir yngri landslið Íslands, U16 & U17.
„Ég er einstaklega glaður með að vera kominn í Stjörnuna,“ segir Baldur Logi eftir að hafa skrifað undir samning við Stjörnuna. „Verkefnið sem blasir við er mjög spennandi og á sama tíma krefjandi. Ég er spenntur fyrir því að byrja og fyrir komandi sumri í Garðabænum.”
Þá er Jökull I. Elísabetarson, aðstoðarþjálfari Stjörnunnar ánægður með að félaginu hafi tekist að klófesta leikmanninn.
„Við erum virkilega ánægðir með komu Baldurs Loga. Hann fellur vel inn í hópinn og það sem við erum að gera og styrkir okkur í stöðum þar sem við höfum verið þunnir. Við erum spenntir að vinna með honum og ná honum á fullt í stjörnu treyjunni.“