Þrír leikir fóru fram í 3. umferð Lengjudeildar kvenna í dag. Afturelding, FH og Víkingur Reykjavík unnu öll sigra.
Stórsigur heimakvenna í Mosó
Guðrún Elísabet Björgvinsdóttir kom Aftureldingu yfir á heimavelli gegn HK eftir stundarfjórðung. Hún tvöfaldaði forystu liðsins um tíu mínútum síðar. Á 32. mínútu skoraði Sigrún Gunndís Harðardóttir þriðja mark heimakvenna. Staðan í hálfleik var 3-0.
Karen Sturludóttir kom Aftureldingu í 4-0 snemma í seinni hálfleik. Ragna Guðrún Guðmundsdóttir minnkaði muninn fyrir HK eftir tæpan klukkutíma leik. Elfa Sif Hlynsdóttir kom heimakonum í 5-1 á 76. mínútu. Ester Lilja Harðardóttir lagaði stöðuna aðeins fyrir HK stuttu síðar. Guðrún Elísabet fullkomnaði svo þrennu sína með sjötta marki Aftureldingar í lok leiks. Lokatölur 6-2.
Afturelding er með 7 stig á toppi deildarinnar. HK er á botninum með 1 stig.
Öruggur útisigur FH
Elísa Lana Sigurjónsdóttir kom FH yfir eftir 8 mínútur á útivelli gegn Augnabliki. Sunneva Hrönn Sigurvinsdóttir tvöfaldaði forystuna stuttu síðar. Elín Björg Símonardóttir gerði þriðja mark gestanna um miðjan fyrri hálfleik. Staðan í hálfleik var 0-3.
Sigrún Ella Einarsdóttir gerði fjórða mark FH á 78. mínútu áður en Júlía Katrín Baldvinsdóttir klóraði í bakkann fyrir Augnablik tíu mínútum síðar.
FH er með 6 stig í þriðja sæti deildarinnar. Augnablik er í því sjöunda með 3 stig.
Fyrsti sigur Víkinga kom á Ásvöllum
Víkingur vann Hauka 0-2 á útivelli. Bæði mörkin komu snemma leiks. Nadía Atladóttir gerði fyrra markið á 7. mínútu. Kristín Erna Sigurlásdóttir skoraði seinna markið fimm mínútum síðar.
Bæði lið eru með 4 stig. Víkingur er í fimmta sæti og Haukar í sjötta.