Umræða var um stöðu Arsenal í útsendingu SkySports fyrir leik kvöldsins í ensku úrvalsdeildinni. Jamie Carragher, fyrrverandi leikmaður Liverpool, var einn af sérfræðingum í setti.
Gengi Arsenal í ensku úrvalsdeildinni á þessu tímabili er ekki gott. Liðið situr í 10. sæti þegar 30 umferðir hafa verið leiknar en Carragher var með skýr skilaboð til forráðamanna Arsenal.
„Það er verið er að deila um hvort þetta sé leikmönnum eða Arteta að kenna, þetta er leikmönnunum að kenna. Haldið ykkur við Arteta og fáið inn þessa ungu leikmenn þegar að þeir eru orðnir heilir,“ sagði Carragher.
Pierre Emerick Aubameyang, fyrirliði liðsins, hefur verið að spila langt undir getustigi og Carragher hefur áhyggjur af því að sagan sé að endurtaka sig hjá félaginu.
„Hann er þannig leikmaður að ef hann er ekki að skora þá hefur hann ekkert fram að færa í liðinu.“
„Ég tel að þetta gæti orðið mikið vandamál og aðilar innan Arsenal og Arteta munu hafa áhyggjur af því að þeir séu komnir með svipað tilfelli og þegar að Mesut Özil var hjá félaginu,“ sagði Carragher.
Carragher vísar þar í atburðarrásina þegar Özil fékk nýjan stóran samning hjá Arsenal og var hvergi sjáanlegur eftir það en Aubameyang fékk nýjan samning hjá Arsenal fyrir núverandi tímabil.
„Aubameyang er stórstjarna í knattspyrnuheiminum en frammistöður hans á tímabilinu hafa gefið til kynna að hann hafi verið latur,“ sagði Jamie Carragher, sérfræðingur á SkySports.