Fram, Fylkir, ÍA og starfshópur KSÍ höfðu lagt inn tillögur um breytingu á mótafyrirkomulagi efstu deildar karla á ársþingi KSÍ sem fer fram þessa stundina.
Fylkir og ÍA drógu tillögur sínar til baka og því var kosið um tvær tillögur, önnur þeirra var frá Fram og hin frá starfshópi KSÍ.
Fram lagði til fjölgun í efstu deild upp í 14 lið en starfshópurinn lagði til að áfram yrðu 12 lið en eftir tvöfalda umferð yrði deildin tvískipt þar sem sex efstu liðin myndu mætast og sex neðstu.
Báðar þessar tillögur voru felldar en 2/3 þurftu að kjósa með tillögu svo hún gæti verið samþykkt. 58% voru með tillögu Fram en 54% með tvískiptri deild. Það er ekki nægur stuðningur og báðar tillögur því felldar. Efsta deild verður því áfram með sama hætti, tólf liða deild þar sem leikin er tvöföld umferð.