Alþjóðahandknattleikssambandið hefur kynnt þær reglur sem munu gilda. Í þeim felst meðal annars að leikmennirnir verða í einangrun og fá ekki að hitta fjölskyldur sínar á meðan á mótinu stendur. Þá verður nokkurskonar hólfaskipting viðhöfð til að draga úr líkunum á smiti. Allir, sem tengjast mótinu, verða að vera í þessu hólfi og mega ekki eiga í samskiptum við fólk utan þess. Þetta nær til leikmanna, þjálfara og annarra sem tengjast liðunum en einnig til fjölmiðlamanna, bílstjóra, sjálfboðaliða, starfsfólks á hótelum, lækna og fleiri.
Allir eiga að gæta þess að halda að minnsta kosti eins og hálfs metra fjarlægð á milli sín og annarra. Allir þurfa að fara í sýnatöku á þriggja daga fresti. Líkamshiti verður mældur reglulega og herbergi verða þrifin oft. Leikmenn mega ekki heilsast fyrir eða eftir leiki og allir nema leikmenn og dómarar eiga að vera með andlitsgrímur á meðan á leik stendur. Liðin fá stærra svæði til umráða við hliðarlínuna en venja er.
Allir sem koma til Egyptalands verða að framvísa neikvæðri niðurstöðu COVID-19 prófs og má hún ekki vera eldri en 72 tíma. Liðin eiga að nota sömu farartækin allan tímann og hiti fólks verður mældur áður en stigið er inn í farartækin. Sigurvegarar mótsins eiga sjálfir að setja verðlaunapeningana á sig.
Þetta er hluti þeirra reglna sem munu gilda.