fbpx
Föstudagur 22.nóvember 2024
Sport

„Við erum víkingar“

Fólkið bak við landsliðið í körfuknattleik – Arnar aðstoðarþjálfari tuðar mest

Ritstjórn DV
Sunnudaginn 3. september 2017 14:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Lokakeppni Evrópumótsins í körfuknattleik, hófst í gær og léku strákarnir okkar sinn fyrsta leik gegn sterku liði Grikkja í Helsinki. Þegar DV fór í prentun var leiknum ekki lokið og ekki hægt að greina frá úrslitum hér en vafalítið hafa íslensku víkingarnir staðið sig með miklum sóma. En þótt allra augu hafi undanfarið beinst að leikmönnunum þá myndi fátt gerast ef ekki væri fyrir þann öfluga hóp sem stendur að baki liðinu og gerir því kleift að einbeita sér að verkefninu, að gjörsigra andstæðinga sína á vellinum.

DV hafði samband við hluta hópsins sem stýrir málum úti í Finnlandi og spurði hann spjörunum úr um hvað helst þyrfti að fást við á meðan þessi körfuboltaveisla stendur yfir.

Þarf að kunna að brjóta saman þvott

Rúnar Birgir Gíslason, fararstjóri hópsins.
Þau eru mörg handtökin

Þau eru mörg handtökin

Fórst þú út með liðinu á Eurobasket 2015 í Þýskalandi? „Já, ég fór út til Berlínar 2015 og var þar sem áhorfandi og stjórnarmaður KKÍ en hafði ekki neitt hlutverk í kringum liðið.“

Hvernig kom það til að þú tókst að þér fararstjórnina? „Sumarið 2016 var ég beðinn um að fara með liðinu í æfingaferð til Austurríkis þar sem fararstjórinn forfallaðist. Ég hafði fyrr um sumarið farið með U15 ára liðunum til Kaupmannahafnar og haft gaman af. Ég sagði já við ferðinni og það gekk vel. Þá kom upp sú hugmynd að ég færi með á EuroBasket 2017 og það er erfitt að segja nei við því að fá að fara sem hluti af hópnum á stórmót.“

Stundaðir þú körfubolta og hvernig var þá ferillinn? „Minn körfuboltagrunn má rekja til skólaáranna í Varmahlíð, þar sem körfuboltinn var aðalíþróttagreinin, jafnvel þótt spilað væri í félagsheimilinu í Miðgarði og völlurinn eins og jólatré í laginu. Seinna varð ég dómari og hef lengi verið viðloðandi það hlutverk. Ég hef setið í stjórn KKÍ í sex ár og nýjasti titillinn sem ég hef bætt á mig er að ég er orðinn alþjóðlegur eftirlitsmaður á vegum FIBA, Evrópska körfuknattleikssambandsins.“

Horfir þú öðruvísi á leikina en venjulegur áhorfandi, það er í ljósi hlutverks þíns með liðinu? „Sem fararstjóri hef ég fundið nýjan vinkil til að horfa á leikinn, ég er sífellt að fylgjast með hvort einhvern vanti eitthvað, vatn, handklæði eða eitthvað annað. Það má segja að maður sé í þjónustuhlutverki og tilbúinn að bregðast við þeim aðstæðum sem koma upp hverju sinni.“

Hvernig undirbjóstu þig fyrir þitt hlutverk með liðinu? „Til að undirbúa sig í fararstjórahlutverkið þarf að huga að ýmsu, spyrja reynslumeira fólk og læra af því. Ég les allar handbækur og upplýsingar sem koma frá mótshöldurum. Svo þarf ég auðvitað að kynna mér áfangastaðina og helstu atriði sem snúa að þeim. Eitt sem getur líka verið mikilvægt í þessu hlutverki er að kunna að brjóta saman þvott. Svo þarf ég auðvitað að vera tilbúinn að svara öllum þeim spurningum sem koma upp og þær geta verið af öllum toga. Þetta snýst um að búa sig undir það óvænta og vera skipulagður.“

Er einhver leikmaður sem alltaf er seinn? Það er vissulega á ábyrgð fararstjóra að skila öllum heilum á höldnu á leiðarenda. Í sumar hefur verið mikið um ferðalög og rútuferðir og ýmislegt komið upp. Menn næstum misst af flugvélum, gleymt mikilvægum hlutum til að nota í leik heima á hóteli þegar komið er í leik og ýmislegt fleira. Það þarf ekkert að draga fram nöfnin en þetta eru allt sögur sem hópurinn hlær að eftir á, allt hefur blessast og allir eru komnir til Helsinki.“

Hver tuðar mest í hópnum? „Líklega er mesti tuðarinn í hópnum Borgfirðingurinn Arnar Guðjónsson [aðstoðarþjálfari], stundum kallaður Skakki, suma daga hefur hann allt á hornum sér. Hann má þó eiga það að með fleiri árum og fleiri börnum þá hefur hann mildast, þótt gamli Arnar komi fram annað slagið.“

Tilbúinn til að koma inn á ef kallið kemur

Gunnar Einarsson styrktarþjálfari
Gunnar stýrir upphitun úti í Helsinki

Gunnar stýrir upphitun úti í Helsinki

Varstu í Þýskalandi á Eurobasket 2015? „Já, ég var þar og hef unnið sem styrktarþjálfari landsliðsins síðan 2015.“

Áttu körfuboltaferil að baki? „Já, ég er fyrrverandi landsliðsmaður í körfuknattleik. Margfaldur bikar- og Íslandsmeistari í körfuknattleik með Keflavík, þess má geta að ég spilaði síðast í úrslitakeppninni 2017 með Keflavík gegn KR.“

Hvernig lentir þú í þessu hlutverki? „KKÍ leitaði eftir mínum starfskröftum og líklega hefur það hjálpað til að vera fyrrverandi leikmaður og þekkja leikinn, aðstæðurnar og geta metið æfingaálag frá reynslu sem fyrrverandi leikmaður. Eftir að ég hætti að spila þá lagði ég stund á ÍAK, einkaþjálfaranámið hjá Keili, og hef sótt fjölda endurmenntunarnámskeiða til þess að halda mér eins framarlega, uppfærðum og hægt er. Ég setti mér það markmið að ég ætlaði mér alltaf að vinna með atvinnumannaliði sem styrkarþjálfari og ætli þetta sé ekki næst því markmiði sem er völ á Íslandi.“

Horfir þú öðruvísi á leikinn en aðrir, þá t.d. með tilliti til meiðsla leikmanna? „Ég er nú ennþá bara að reyna að venjast því þegar þjálfarinn horfir eftir bekknum og er að fara skipta inn á, að ég er ekki með í myndinni – en ég er engu að síður klár ef kallið kemur!“

Hvernig undirbýrð þú þig fyrir mótið? „Ég æfi vel og passa upp á að vera í góðu formi og reyni einnig að fá staffið til þess að vera duglegt að æfa í ferðunum svo að menn séu vel upplagðir.“

Ertu að missa af einhverju verulega mikilvægu af því þú ert þarna úti? „Ég hef misst af afmæli sonar míns undanfarin tvö ár en náði að halda upp á það með honum fyrir þessa ferð því það hitti þannig á.“

Hver er alltaf óstundvís? „Hörður Axel, hann tekur sinn tíma til að koma sér út úr húsi þegar við Suðurnesjamennirnir erum að keyra saman á æfingar.“

Hver er óánægðastur með matinn? „Arnar Guðjóns er sá sem tuðar manna mest yfir matnum en hann er jafnframt sá sem borðar mest af eftirréttunum og hefur meðal annars komið upp einkunnakerfi og skikkar hann menn til þess að gefa eftirréttinum einkunn frá 1–5. Bannað er að gefa einkunn nema hún sé í heilum tölum. Ekkert 2,5 rugl.“

„Til hamingju með afmælið Inga amma!“

Sigríður Inga Viggósdóttir, starfsmaður á skristofu KKÍ
Hans Steinar Bjarnason, íþróttafréttamaður RÚV, spyr Sigríði um hvort hún geti reddað eiginhandaráritunum fyrir sig.

Hans Steinar Bjarnason, íþróttafréttamaður RÚV, spyr Sigríði um hvort hún geti reddað eiginhandaráritunum fyrir sig.

Varstu í Þýskalandi á Eurobasket 2015? „Já, ég var þar en ekki sem starfsmaður heldur sem almennur stuðningsmaður og skemmti mér stórkostlega í borginni.“

Hvernig lentir þú í þessu hlutverki? „Ég hóf störf á skrifstofu KKÍ á síðasta ári. Þegar kom að því að ákveða hlutverk hvers og eins vegna EuroBasket fékk ég það skemmtilega verkefni að sjá um samskipti við stuðningsmenn og þar sé ég um stuðningsmannasvæðið fyrir hönd Íslands (Fan Zone) og miðamál. Ég hef hitt ótrúlega marga á síðustu vikum og hlakka rosalega mikið til.“

Áttu körfuboltaferil að baki? „Ég held það nú. Ég er eini starfsmaður skrifstofunnar sem get raunverulega eitthvað í körfubolta, enda lék í meistaraflokki í mörg ár og á nokkra unglingalandsliðsleiki að baki. Einnig hef ég þjálfað yngri flokka og hef því einhverja reynslu að baki í þessum bransa.“

Ertu að missa af einhverju verulega mikilvægu af því að þú ert þarna úti? „Já. Inga amma mín, hún á áttræðisafmæli þann 31. ágúst og óska ég henni innilega til hamingju með daginn.“

Hvað var mest krefjandi varðandi skipulagninguna? „Listamennirnir sem við leituðum til sögðu strax já og það auðveldaði mér mjög mikið mína vinnu. Það verður gaman að sjá þá Úlf Úlf og svo Sverri Bergmann og Halldór Gunnar skemmta Íslendingum á Fan Zone-inu enda er það nýjung fyrir okkur á EuroBasket. Það verður rosamikið fjör í Fan Zone-inu alla daga en Finnarnir hafa staðið mjög framarlega í að skipuleggja viðburði í tengslum við stórmót þegar þeir hafa verið að keppa erlendis. Það verður gaman að sjá hvernig til tekst á þeirra heimaslóðum.“

Hefur misst af brúðkaupi fyrir landsliðið

Jóhannes Marteinsson sjúkraþjálfari
Jóhannes tekur vel á Pavel Ermolinskji.

Jóhannes tekur vel á Pavel Ermolinskji.

Varstu í Þýskalandi á Eurobasket 2015? „Já, ég var í Þýskalandi 2015 en ég hef verið með strákana síðan 2011. Það eru því nokkuð mörg flug og rútuferðir sem eru að baki.“

Hvernig lentir þú í þessu hlutverki? KKÍ leitaði til Atlas, þar sem ég starfa, og ég var svo heppinn að fá þetta verkefni. Núna sex árum seinna er ég enn að.“

Áttu körfuboltaferil að baki? „Nei, ekki leikmannaferil en ég var liðtækur á leikvellinum og þótti harður í horn að taka þótt ég segi sjálfur frá.“

Horfir þú öðruvísi á leikinn en aðrir, þá t.d. með tilliti til meiðsla eða endurheimtar? „Já, ég geri það. Ég fylgist náið með hvernig menn bera sig að á vellinum. Þegar flestir horfa á hvernig leikmenn til dæmis klára sniðskot þá er ég að fylgjast með hvernig þeir lenda eftir skotið.“

Ertu að missa af einhverju verulega mikilvægu af því að þú ert þarna úti? „Ekki núna en ég hef til dæmis misst af brúðkaupi. Ég hef þó verið svo heppinn að hafa aldrei misst af afmæli barnanna minna í þessum landsliðsferðum.“

Hvaða leikmaður vælir mest í sjúkraþjálfun? „Við erum víkingar og það vælir enginn í þessu liði.“

Hefði tekið landsliðið fram yfir allt annað

Kristinn Geir Pálsson, umsjónarmaður landsliðsmála KKÍ
Það fer ekkert milli mála hvaðan Kristinn kemur

Það fer ekkert milli mála hvaðan Kristinn kemur

Varstu í Þýskalandi á Eurobasket 2015? „Heldur betur, ég var í teymi KKÍ þá líka og sá um samskipti við fjölmiðla og fréttir í hlutverki fjölmiðlafulltrúa Íslands á mótinu.“

Hvernig lentir þú í þessu hlutverki? „Ég hef unnið hjá KKÍ í rúm níu ár og sinni ýmsum verkum. Árið 2015 hentaði best að ég myndi sinna fréttahlutanum en í ár í Finnlandi er ég liðsstjóri, sem er hlutverk sem ég hef einnig sinnt í liðinu á liðnum árum.“

Áttu körfuboltaferil að baki? „Ég byrjaði að æfa 11 ára og er ennþá að. Eftir að hafa leikið með Breiðabliki fyrst og svo ÍR sem unglingur, þá lék ég í 2. deild og 1. deild með Ármanni í nokkur ár. Síðan hef ég spilað með B-liði Hauka í Hafnarfirði undanfarin ár, enda alltaf jafn gaman að æfa og keppa í körfubolta.“

Horfir þú öðruvísi á leikinn en aðrir vegna hlutverks þíns með liðinu? „Ég fylgist með ýmsum hlutum eins og framlagi í vörn og baráttu, og hvað menn gera fyrir samherja sína, hluti sem sjást oft ekki á tölfræði en skipta miklu máli. Síðan finnst mér líka gaman að horfa á dómarana og sjá hvernig þeir dæma og hvað ég hefði gert í þeirra aðstæðum.“

Hvernig undirbýrð þú þig fyrir mótið? „Sem liðsstjóri sé ég til þess að allur búnaður sé til staðar, eins og búningar, fatnaður, fæðubótarefni og annað slíkt sem þarf að hafa, sem og ýmis gögn og slíkt sem þarf að hafa meðferðis.“

Ertu að missa af einhverju verulega mikilvægu af því að þú ert þarna úti? „Ég er ekki að missa af neinu mikilvægu í ár en það hefði líklega verið alveg sama hvað það væri, ég hefði sleppt því og kosið að vera hér með liðinu hvort eð er.“

Hver er alltaf óstundvís? „Hinn magnaði Kristófer Acox er alltaf síðastur. Mikil list sem felst í því að ná því.“

Hver tuðar mest og yfir hverju? „Það er stundum stutt í sveitamanninn í honum Arnari aðstoðarþjálfara, sem var örugglega rússneskur í fyrra lífi, en það gengur fljótt yfir og leysist yfirleitt ef eitthvað er vandamálið.“

Hver borðar alltaf allt? „Allir strákarnir eru duglegir að borða og borða vel, en það er einn leikmaður sem borðar yfirleitt tvisvar til þrisvar sinnum meira en aðrir og það er hann Tryggvi Snær, hann þarf víst mikla orku til halda þessum 216 sentimetrum við.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

433Sport
Fyrir 6 klukkutímum

Norska undrabarnið ætlar ekki að færa sig nema að honum verði lofaður spiltími

Norska undrabarnið ætlar ekki að færa sig nema að honum verði lofaður spiltími
433Sport
Fyrir 6 klukkutímum

Dregið í umspilið í dag – Mikið undir fyrir íslenska landsliðið

Dregið í umspilið í dag – Mikið undir fyrir íslenska landsliðið
433Sport
Fyrir 18 klukkutímum

Romano uppljóstrar því hvaða stöðu Amorim vill kaupa í fyrst

Romano uppljóstrar því hvaða stöðu Amorim vill kaupa í fyrst
433Sport
Fyrir 18 klukkutímum

Fékk á sig fúkyrðaflaum fyrir klæðnað í jarðarför Liam Payne – Sagan er hins vegar falleg og hreyfir við fólki

Fékk á sig fúkyrðaflaum fyrir klæðnað í jarðarför Liam Payne – Sagan er hins vegar falleg og hreyfir við fólki
433Sport
Fyrir 20 klukkutímum

Hefur áhyggjur af Sancho hjá Chelsea og færir rök fyrir máli sínu

Hefur áhyggjur af Sancho hjá Chelsea og færir rök fyrir máli sínu
433Sport
Fyrir 22 klukkutímum

Þrjú félög gætu farið í breytingar og Nistelrooy ætlar að reyna að fá starf

Þrjú félög gætu farið í breytingar og Nistelrooy ætlar að reyna að fá starf
433Sport
Fyrir 23 klukkutímum

Ásgeir Frank fær mikla ábyrgð í Grafarvogi

Ásgeir Frank fær mikla ábyrgð í Grafarvogi