Sá fyrir sér dauða og djöful þegar ævintýrið hófst
„Í rauninni bjóst ég ekki við að ná þessu markmiði,“ sagði Arnar Pétursson hlaupari í samtali við DV um ótrúlegt afrek sitt. Arnar setti sér markmið í upphafi árs sem hann náði svo á dögunum, Arnar varð Íslandsmeistari í níundu greininni á árinu og þar með fyrsti frjálsíþróttamaðurinn til að vera ríkjandi Íslandsmeistari í níu mismunandi greinum hér á landi. Afrekið er einstakt.
„Þetta markmið var sett upp til að reyna að hafa hemil á sjálfum sér, maður þarf að vera heill allt árið. Tímabilið er frá febrúar og núna fram í október. Það er mjög auðvelt að fara fram úr sér, gera of mikið. Ef maður fer of hratt þá verður maður fyrir meiðslum, ég var því alltaf með þetta markmið í huganum; að ég væri ekki að gera of mikið. Ég þurfti að vera klár í slaginn á níu mismunandi tímum. Íslandsmótið innanhúss er í febrúar og seinasta hlaupið núna var í lok október.“
Tímabilið hefur verið langt og strangt fyrir Arnar en það var ein ótrúleg vika í sumar sem stendur upp úr. „Þetta er eftirminnileg vika, hún byrjaði á miðvikudegi, þar sem ég hljóp í Ármannshlaupi sem er hluti af Powerade-mótaröðinni. Ég fór svo til Akureyrar á fimmtudagsmorgni með flugi og hljóp þar hálft maraþon, ég kom til Reykjavíkur á föstudegi og strax á laugardegi var Íslandsmótið í 3.000 metra hindrunarhlaupi. Það tekur mikið á, hindranir og að stökkva ofan í gryfjur, það er oft erfitt. Á sunnudeginum var það svo Íslandsmótið í 5.000 metra hlaupi. Það voru því fjögur hlaup á fimm dögum, ég var búinn á því eftir það.“
Arnar segir að stærsta spurningarmerkið hafi verið fyrir Reykjavíkurmaraþonið. Hann hefði þó ekki þurft að hafa áhyggjur af því; hann vann það sannfærandi í ágúst. „Þetta ár hefur verið algjör snilld, maraþonið var mesta spurningarmerkið. Þar getur flest farið úrskeiðis, en það gekk hins vegar fullkomlega upp. Ég var líka snöggur að koma mér í gott stand aftur. Það á ekki að vera hægt að sami maðurinn sé að vinna 3.000 metra hlaup og síðan maraþon. Þjálfunarfræðin og líffræðilega hliðin segja að þetta eigi ekki að vera svona, það sem hjálpar mér er að ég hef snerpu og hraða úr fótbolta og körfubolta. Ég hef svo getað unnið vel í hraðaúthaldi fyrir lengri vegalengdir.“
Draumur allra frjálsíþróttamanna er að komast á Ólympíuleikana og þangað stefnir hugur Arnars. „Mitt markmið hefur alltaf verið að komast þangað og þá í maraþoni. Markmiðið á næsta ári er að fara utan og reyna sig þar, ég fer til Hamborgar í lok apríl. Það verður við toppaðstæður og þá sér maður hvar maður stendur, maður sér tímann og hvaða markmið maður þarf að setja sér til að ná lágmarkinu,“ sagði Arnar en næstu Ólympíuleikar fara fram sumarið 2020, í Tókýó.
Flestir hugsa um hlaup sem kvöl og pínu og Arnar var einn af þeim sem hugsuðu þannig. „Ég er fullkomið dæmi um þetta sjálfur, ég hataði hlaup hér áður fyrr. Ég byrjaði að æfa hlaup eftir að það hafði verið ýtt á mig, ég var að setja einhver met í „testum“ í fótboltanum og körfuboltanum. Ég hef alltaf verið góður í úthaldi, ég sá samt fyrir mér bara dauða og djöful. Maður ólst upp við það í íþróttum að hlaup væru refsing. Síðan fór ég á æfingar og það kom annað í ljós. Þetta er miklu fjölbreyttara en maður heldur, maður þarf svo að hafa einhver markmið til að gera þetta skemmtilegt. Ég skil vel að fólki finnist leiðinlegt að fara út að hlaupa ef það er bara stefnulaust, ég er sjálfum á þeim stað. Þú verður að hafa einhver markmið til að njóta þess. Fyrir fólk sem hefur áhuga á að reyna þetta mæli ég með að það byrji á að fara í 10 kílómetra hlaup og fái einhvern tíma. Þá er fólk komið á einhvern stað og getur unnið út frá því að bæta þann tíma.“
Til að halda haus og hafa andlegt úthald í öll þessi hlaup þarf að vera andlega sterkur. „Ég áttaði mig á því þegar ég byrjaði að hlaupa hvað hausinn er stór hluti af þessu, ég fór og athugaði sjálfan mig. Ég fór niður í íþróttahúsið í Smáranum, það eina sem ég hafði var hlaupabrettið, ekki nein tónlist og hvítur veggur fyrir framan mig. Ég hljóp 35,5 kílómetra þar. Ég fór hálft maraþon á maraþonhraða, þetta var algjör viðbjóður. Þetta gekk samt upp og þetta var ekki jafn leiðinlegt og ég átti von á. Ef maður gat komist í gegnum þetta þá taldi ég að ég væri nógu sterkur í hausnum í þetta,“ sagði Arnar að lokum í samtali við DV en hægt er að fylgjast með honum á Instagram en þar er hann með notendanafnið @arnarpetur.