Gríðarlega mikilvægur leikur hjá íslenska körfuboltalandsliðinu í kvöld
Íslenska karlalandsliðið í körfuknattleik mætir Kýpverjum í afar þýðingarmiklum leik í Laugardalshöllinni í kvöld. Leikurinn, sem hefst klukkan 20.15, er hluti af næst síðustu umferð undankeppni Evrópumótsins, en úrslitakeppnin fer fram í september á næsta ári.
Íslenska landsliðið þarf nauðsynlega á sigri að halda í kvöld, ef draumurinn um úrslitakeppnina á að verða að veruleika. Eftir sigur í fyrstu tveimur leikjum undanriðilsins, hafa tvö töp fylgt í kjölfarið og er liðið nú komið með bakið upp við vegg. Finnur Freyr Stefánsson, aðstoðarþjálfari íslenska landsliðsins, var nýkominn af léttri hádegisæfingu landsliðsins, þegar DV náði tali af honum. „Þrátt fyrir tvö töp í röð, þá er stemningin í hópnum góð og sjálfstraustið í fínu lagi. Það er meira en að segja það að ná góðum úrslitum á útivöllum í þessari keppni, ekki síst á móti öflugu liði eins og Belgíu. Ákveðin atriði voru að klikka í þessum leikjum sem við höfum nú farið vel yfir. Við féllum svolítið frá þessari aggressívu vörn sem við höfum verið að spila og til þess að ná einhverjum úrslitum í kvöld, þá verðum við að ná henni upp.“
Finnur kvað það ekki hafa bætt úr skák að meiðsli og veikindi hafi hrjáð hópinn. „Jón Arnór Stefánsson hefur verið að glíma við meiðsli og þá voru Hörður Axel Vilhjálmsson og Ægir Þór Steinarsson lítillega veikir. En það eru allir heilir fyrir leikinn í kvöld, enda þarf liðið á öllum að halda, til þess að landa sigri í kvöld.“ Þá skipti stuðningur áhorfenda einnig miklu máli og vildi Finnur að lokum hvetja áhorfendur til þess að láta vel í sér heyra í Laugardalshöllinni í kvöld, en leikurinn hefst klukkan 20.15.