Máttu ekki við ósigri gegn Sviss
Íslenska landsliðið í körfuknattleik karla tapaði í dag sínum öðrum leik í röð í undakeppni EM. Liðið lék við Sviss á útivelli en Íslendingar unnu öruggan sigur á liðinu í Laugardalshöll á dögunum. Nú snerist dæmið við.
Jafnræði var með liðunum í fyrri hálfleik þó Íslendingar væru yfirleitt með nauma forystu. Í þeim síðari hallaði undan fæti. Sviss náði mest 11 stiga forystu í síðari hálfleik. Áhlaup Íslendinga hófst of seint en liðið var með afleita nýtingu utan þriggja stiga línunnar lengst af í leiknum. Í blálokin fór liðið að hitta en minnkaði muninn aðeins niður í þrjú stig áður en yfir lauk. Lokatölur urðu 83-80, Sviss í vil.
Varamaðurinn Elvar Friðriksson lék manna best í íslenska liðinu auk þess sem Haukur Helgi Pálsson var góður framan af leik. Lykilmenn eins og Jón Arnór Stefánsson og Hörður Axel Vilhjálmsson áttu slakan dag – það munar um minna.
Með sigri hefði risaskref unnist í átt að því að tryggja liðinu sæti á EM næsta haust en allt kom fyrir ekki. Ísland er í öðru sæti riðilsins með 4 stig eftir 4 leiki en Sviss vann í dag sín fyrstu tvö stig. Belgar leiða riðilinn með 8 stig, fullt hús. Kýpur heur 2 stig. Ísland á eftir að leika við Belgíu og Kýpur hér heima.
Efsta liðið í riðlinum kemst beint á EM auk fjögurra liða sem hafna í öðru sæti riðlanna sex. Ósigurinn í dag veikir stöðu Íslands til muna, þó nóttin sé ekki úti.