Gylfi Þór Sigurðsson hefur skrifað undir nýjan fjögurra ára samning við Swansea í ensku úrvalsdeildinni. Swansea tilkynnti þetta á heimasíðu sinni nú í hádeginu.
Gylfi, sem lék vel með íslenska landsliðinu á Evrópumótinu í sumar, hefur verið algjör lykilmaður hjá Swansea, en hann gekk í raðir félagsins frá Tottenham sumarið 2014. Síðan þá hefur hann leikið 88 leiki með liðinu og skorað 27 mörk, þar af 18 í úrvalsdeildinni. Gylfi lék sem lánsmaður hjá Swansea fyrri hluta árs 2012 og skoraði þá 7 mörk í 18 leikjum í úrvalsdeildinni.
Þá tilkynnti Wolves, sem leikur í Championship-deildinni á Englandi, að félagið hefði klófest Jón Daða Böðvarsson frá Kaiserslautern í Þýskalandi. Jón Daði átti, líkt og fleiri leikmenn íslenska landsliðsins, gott Evrópumót og skoraði hann til dæmis mikilvægt mark í sigrinum á Austurríki. Talið er að Wolves borgi þýska félaginu 2,7 milljónir punda fyrir leikmanninn.
„Þetta er félag með mikinn metnað, magnaða sögu og góða aðstöðu,“ segir Jón Daði í viðtali á heimasíðu Wolves, en QPR sýndi honum einnig áhuga.
Sannarlega góðar fréttir af íslensku landsliðsmönnunum eftir frábæra frammistöðu liðsins á EM í sumar. Hér að neðan má sjá viðtal við Gylfa sem birtist á heimasíðu Swansea og svipmyndir af mörkum hans fyrir félagið.