Stephen Curry setti niður 37 stig
Golden State Warriors jafnaði í nótt 20 ára gamalt met sem Michael Jordan og félagar í Chicago Bulls settu yfir flesta sigurleiki á einu tímabili í NBA-deildarkeppninni. Lið Golden State gerði sér lítið fyrir og lagði San Antonio Spurs á útivelli, 92-86, og getur liðið slegið met Bulls á miðvikudagskvöld þegar liðið mætir Memphis Grizzlies á heimavelli í síðasta leik deildarkeppninnar.
Fyrir leikinn í gærkvöldi hafði San Antonio ekki tapað á heimavelli í 39 leikjum í röð. Þá hafði Goden State-liðið ekki unnið á heimavelli San Antonio síðan árið 1997. Með sigrinum varð liðið einnig það fyrsta í sögu NBA-deildakeppninnar til að tapa ekki fleiri en einum leik í röð í deildinni. Það er að segja, eftir tapleik hefur ávallt komið sigurleikur hjá Golden State og hefur engu liði í sögu NBA tekist þetta.
Stephen Curry að vanda algjör lykilmaður hjá Golden State, en hann skoraði 37 stig í leiknum í nótt, þar af 15 stig í þriðja leikhluta. Hjá Spurs var Kawhi Leonard stigahæstur með 20 stig.