Maraþonhlauparinn Kári Steinn Karlsson stefnir á ólympíulágmark í Dusseldorf – Kominn á síðasta séns
„Þetta er hálfsúrt en maður lætur sig hafa klakann og myrkrið,“ segir maraþonhlauparinn Kári Steinn Karlsson í samtali við DV um hvernig það er að æfa langhlaup við þær aðstæður sem verið hafa á höfuðborgarsvæðinu í vetur.
Kári Steinn hefur verið fremstur íslenskra langhlaupara um árabil. Undanfarin misseri hefur hann unnið að því að ná lágmarki fyrir ólympíuleikanna í Ríó í Brasilíu, sem fram fara í ágúst. Það hefur ekki gengið áfallalaust fyrir sig. Framan af árinu í fyrra var hann í góðum gír; setti Íslandsmet í hálfu maraþoni og stefndi að því að ná ólympíulágmarki síðastliðið vor í Hamborg í Þýskalandi. Síðan seig á ógæfuhliðina. „Síðasta sumar reyndist mér erfitt. Ég þori ekki alveg að fullyrða um hvað gerðist en ég var þreyttur, orkulítill og mig svimaði. Hugsanlega var það tengt ofálagi og ofþjálfun,“ segir Kári sem bæði æfði mikið og vann fulla vinnu.
Hann rifjar upp að honum hafi ekki liðið sem best fyrir hlaupið í Hamborg. „Í hlaupinu sjálfu lenti ég svo alveg á vegg. Ég staulaðist í mark.“ Honum gekk illa að jafna sig eftir hlaupið og var ekki sjálfum sér líkur.
Hann segist hafa gert þau mistök að ætla að bæta fyrir ófarirnar í Berlínarmaraþoninu um haustið. „Ég ætlaði að komast strax í stand og mátti ekkert vera að því að hlusta á líkamann. Ég æfði bara ofan í þreytuna og var í kapphlaupi við tímann allt sumarið.“ Rétt fyrir maraþonið varð honum ljóst að hann gæti ekki hlaupið. Hann hætti við þátttöku og hvíldi í mánuð, eitthvað sem hann að eigin sögn hefði átt að gera fyrr. „Það tók fleiri mánuði að ná alvöru æfingum aftur. Það var ekki fyrr en í desember eða janúar sem þetta var orðið eðlilegt og ég er loksins kominn á gott ról.“
Kári tók þátt í HM í hálfmaraþoni um páskahelgina og náði þar ágætum tíma þrátt fyrir rok og rigningu. Hann stefnir að því að ná ólympíulágmarki í Dusseldorf þann 24. apríl. Til þess þarf hann að hlaupa á undir tveimur klukkustundum og 19 mínútum. „Það snýst allt um Ríó og þetta hlaup um helgina er liður í þeim undirbúningi.“ Kári keppti á síðustu Ólympíuleikum og hljóp þá á 2:18:47 sekúndum, í miklum hita – auk þess sem hann hljóp hluta leiðarinnar með stein í öðrum skónum.
Kári Steinn hefur best hlaupið maraþon á 2:17:12 en telur sig geta bætt sig um tvær til þrjár mínútur, í sínu allra besta formi. Í slíku hlaupi þurfi hins vegar allt að ganga upp. „Þetta er spurning um að komast á startlínuna í sínu allra besta formi.“
Kári viðurkennir að aðstæður til langhlaupa hafi ekki verið góðar á Íslandi í vetur. Hann fór í æfingabúðir á Tenerife fyrr í vetur en hefur annars æft heima. Hann segir að færðin hafi verið erfið á köflum í vetur og þá hafi hann tekið „gæðaæfingar“ á hlaupabretti en að nú sé ástandið orðið betra. Aðstæður til langhlaupa séu mjög góðar á höfuðborgarsvæðinu að sumri til. „Það eru frábærir stígar í Heiðmörk og víða í Reykjavík. Á sumrin er Ísland heimsklassaæfingasvæði fyrir langhlaup.“ Þess á milli noti hann hlaupabretti og Laugardalshöllina.
Kári Steinn segist vera kominn á síðasta séns þegar kemur að því að ná ólympíulágmarki. Markmiðið hafi verið að ná því í Hamborg í fyrra og svo Berlín, en það hafi farið forgörðum. „Það er plan C að ná þessu í Dusseldorf núna í apríl. Ef það gengur ekki þá verður þetta þungur róður – þá á ég bara einn séns eftir.“ Skýringin er sú að til að ná góðum árangri í Ríó þurfi hann að vera búinn að ná tveggja til þriggja mánaða uppbyggingu. Hann gæti átt eina „örvæntingarfulla“ tilraun eftir, náist markmiðið ekki í Dusseldorf. „En það væri ekki kjörundirbúningur.“
„Þetta er spurning um að komast á startlínuna í sínu allra besta formi.“
Kári verður þrítugur í maí en að hans sögn toppa hlauparar um þrítugsaldurinn, þó að menn geti náð góðum árangri einhver ár í viðbót eftir það. Hann kostar æfingar sínar og keppni að stærstum hluta sjálfur. Hann þiggur hvergi peningagreiðslur enda segir hann að lítið sé um styrktaraðila. Hann fái skó og einhvern fatnað, jafnvel vítamín en stærstan hluta kostnaðarins ber hann sjálfur. „Stundum tekur Frjálsíþróttasambandið þátt í þessu, eins og til dæmis um helgina, en svona er þetta bara.“ Hann viðurkennir að það væri ljúft að geta verið í æfingabúðum í hverjum mánuði en hann leiði hugann sjaldan að slíku. „Maður er orðinn vanur þessu og þetta er það sem maður vill gera. Það er ágætis jafnvægi í þessu.“
En hver er eru markmið hans fyrir Ólympíuleikana, nái hann lágmarki? Hvað er raunhæft fyrir hann að ná framarlega? Í London hafnaði Kári í 42. sæti. „Það gekk nokkuð vel þá en maður ætti að geta verið eitthvað sterkari – náð aðeins betri degi. Topp 30 væri algjör draumur. Það er óraunhæft að stefna hærra. Langstærstur hluti þeirra sem keppa á Ólympíuleikunum eru atvinnumenn en ég er í fullri vinnu og er ekki samkeppnishæfur við þá allra bestu. Hvað þá Afríkubúana, sem eru á öðru plani.“