Refirnir á toppi ensku úrvalsdeildarinnar – Með sex stiga forystu eftir 3-1 útisigur á Etihad-vellinum
Leicester City sigraði Manchester City með þremur mörkum gegn einu þegar liðin mættust í ensku úrvalsdeildinni í knattspyrnu í dag. Með sigrinum hélt Leicester toppsæti deildarinnar en liðið hefur verið á ótrúlegri siglinu þetta tímabilið.
Um sannkallaðann toppslag var að ræða en fyrir leikinn munaði aðeins þremur stigum á liðunum og því yrði sigurvegarinn í efsta sæti deildarinnar að leik loknum.
Leikurinn hófst í hádeginu og leikið var á Etihad í Manchester. Gestirnir frá Leicester komust yfir strax á þriðju mínútu en þá skoraði Robert Huth af stuttu færi inn í vítateig City.
Þannig stóðu leikar í hálfleik. Leicester komst svo í tveggja marka forystu í upphafi síðari hálfleiks en þá skoraði Riyad Mahrez. Robert Huth bætti svo við sínu öðru marki í leiknum og þriðja marki Leicester á 60 mínutu.
Staðan var því orðin þrjú mörk gegn engu, gestunum í vil. Argentínski framherjinn Sergio Aguero náði að klára í bakkann fyrir City með marki á 87 mínútu en lengra komust heimamenn ekki og lokatölu 3-1 fyrir Leicester.
Öskubuskuævintýri Leicester City heldur því áfram en með sigrinum má segja að Refirnir hafi tekið stórt skref í átt að sínum fyrsta Englandsmeistaratitli.