Ísland í riðli með Frökkum, Grikkjum, Finnum, Slóvenum og Pólverjum
Búið er að draga í riðla fyrir Eurobasket sem fram fer næsta sumar og mætir íslenska liðið Frakklandi, Grikklandi, Slóveníu og Póllandi auk Finna sem eru gestgjafar. Frakkar voru í efsta styrkleikaflokki en með þeim leika fjölmargir frábærir leikmenn, til dæmis Tony Parker hjá San Antonio Spurs og Boris Diaw hjá Utah Jazz.
Grikkir verða andstæðingar okkar úr 2. styrkleikaflokki en Grikkir eru eins og Frakkar með ógnarsterkt lið. Þrír leikmenn úr leikmannahópi Grikkja leika í NBA-deildinni, þeirra á meðal er Giannis Antetokounmpo sem skoraði tæp 17 stig að meðaltali í leik fyrir Milwaukee Bucks á síðustu leiktíð.
Ísland var í neðsta styrkleikaflokki fyrir dráttinn og því ljóst að andstæðingar okkar yrðu býsna öflugir. Mótið fer fram næsta sumar en þetta er í annað skiptið í röð sem Ísland verður meðal þátttökuþjóða. Síðast stóðu strákarnir sig með prýði og veittu andstæðingum sínum harða keppni, þó allir leikirnir hafi tapast.