Finnst valið á sóknarmanni Molde senda röng skilaboð til annarra leikmanna
Hörður Magnússon, íþróttafréttamaður og umsjónarmaður Pepsi markanna á Stöð 2 sport, segist á Facebook ekki skilja hvernig hægt sé að réttlæta val Heimis Hallgrímssonar á sóknarmanninum Birni Bergmann Sigurðarsyni.
Hörður bendir á að Björn hafi ítrekað hunsað fyrri landsliðsþjálfara og hafi ekki látið ná í sig. „Nú kemur hann upp á yfirborðið og er tekinn framyfir leikmenn sem hafa alltaf verið tilbúnir að spila fyrir landsliðið,“ segir Hörður, sem lék níu landsleiki á árunum 1990 til 1993.
Hann er þeirrar skoðunar að með valinu sé verið að senda röng skilaboð til leikmanna, „burtséð frá persónum og leikendum.“ Aðspurður nefnir hann að leikmenn á borð við Kjartan Henry Finnbogason og Matthías Vilhjálmsson hefðu getað fengið kallið. Matthías Vilhjálmsson sé til að mynda mikilvægur hlekkur í langbesta liði Noregs.
Honum finnst fordæmið hættulegt. „Þetta val er út í bláinn. Þú þarft að gera meira – fyrir utan glórulausa framkomu þar á undan.“
Kolbeinn Sigþórsson er fjarri góðu gamni vegna meiðsla. Heimir Hallgrímsson landsliðsþjálfari segir í leikskrá KSÍ að Björn Bergmann hafi líka eiginleika og Kolbeinn. Hann sé sterkur í loftinu og mjög líkamlega sterkur. „Hann er kannski sá framherji sem svipar helst til Kolbeins. Þannig að hans eiginleikar geta komið til með að nýtast okkur í þessum verkefnum þegar Kolbeinn er ekki með,“ segir landsliðsþjálfarinn um valið.
Þess má geta að Björn Bergmann hefur leikið vel með Molde að undanförnu. Hann hefur skorað fjögur mörk í sjö leikjum undir stjórn Ole Gunnar Solskjær þjálfara.
Ísland mætir Finnlandi í undankeppni HM á Laugardalsvelli á morgun. Liðið mætir svo Tyrkjum hér heima á sunnudag.