Frábært myndband af fagnaðarlátum í Þórshöfn
Það er gott að eiga góða að. Íslendingar eiga líklega bestu nágrannaþjóð í heimi. Þegar á hefur þurft að halda hafa Færeyingar aldrei verið lengi að rétta fram hjálparhönd.
Kærleikurinn sem ríkir á milli Íslands og Færeyja sást berlega í Þórshöfn í Færeyjum í kvöld eins og meðfylgjandi myndband ber með sér. Þar var fjöldi fólks samankominn til að horfa á leik Íslands og Englands í 16-liða úrslitum Evrópumótsins.
Gríðarlegur fögnuður braust út þegar Ragnar Sigurðsson jafnaði metin fyrir Ísland í byrjun leiks. Fögnuðurinn var líklega engu minni þegar Kolbeinn Sigþórsson kom Íslandi yfir eða þegar slóvenski dómarinn flautaði til leiksloka. Dásamlegt myndband af fögnuði Færeyinga má sjá hér að neðan.