Birkir í flottum hópi leikmanna sem breska blaðið Guardian fjallar um
Birkir Bjarnason er einn þeirra leikmanna sem hafa hækkað í verði á Evrópumótinu í Frakklandi sem nú stendur yfir.
Breska blaðið Guardian tekur saman lista yfir nokkra leikmenn sem hafa sýnt flott tilþrif á Evrópumótinu og líklega hækkað nokkuð í verði með frammistöðu sinni. Birkir er einn þessara leikmanna, en hann leikur sem kunnugt er með Basel í Sviss eftir að hafa leikið á Ítalíu um nokkurra ára skeið.
„Það hefur ekki verið neinn skortur á hetjum hjá íslenska liðinu það sem af er móti. En Birkir hefur verið óþreytandi á miðjunni og lagt undirstöðurnar fyrir velgengni íslenska liðsins. Þessi 28 ára leikmaður skoraði jöfnunarmarkið gegn Portúgal og það var hreinsun hans á 95. mínútu sem varð til þess að Ísland skoraði sigurmarkið gegn Austurríki (hann tók líka sprettinn upp allan völlinn til að taka þátt í sókninni, sem sýnir hversu miklum krafti hann býr yfir). Klettur sem Englendingar verða að finna leið til að komast framhjá,“ segir í umfjöllun Guardian en Birkir er þarna í hópi mjög góðra leikmanna.
Meðal annarra sem eru nefndir eru Dimitri Payet, Kyle Walker, Marek Hamsik, Ivan Perisic, Joe Allen, Grzegorz Krychowiak og David Silva.