Erfitt þegar gagnrýni föður fór á Facebook
Helga María Vilhjálmsdóttir skíðakona brunar niður fjallshlíðar á hundrað kílómetra hraða. Hún hefur verið ein besta skíðakona landsins um árabil og þrátt fyrir ungan aldur er árangur hennar til mikillar fyrirmyndar. Þetta er það sem henni finnst skemmtilegast og hún segist taka því mátulega alvarlega til að geta skíðað sem lengst. Hún treystir skíðunum betur en bílnum og er núna að temja sér þolinmæði á meðan hún jafnar sig eftir að hafa slitið krossband. Hún ræddi við Ástu Sigrúnu Magnúsdóttur um hraðann, æfingarnar og sinn helsta stuðningsmann, sem segir alltaf það sem honum dettur fyrst í hug.
„Ég treysti skíðunum mínum betur en bílnum þegar svo ber undir,“ segir Helga María. Þegar hún var eitt sinn mæld í skíðabrekkunni var hún á 136 kílómetra hraða. „Þá var ég að fara beint niður brekkuna,“ segir hún. „Þetta er smá klikkun, sko,“ segir hún og hlær.
Helga María hefur á undanförnum árum verið ein besta og efnilegasta skíðakona landsins. Hún hefur sýnt að hún hefur allt til að bera til að vera í fremstu röð og stefnir þangað ótrauð.
Helga María stóð fyrst á skíðum tveggja ára gömul, en faðir hennar var skíðakappi og taldi dóttur sína afar efnilega. Hún segist hafa reynt sig við nokkrar aðrar íþróttagreinar, eins og sund, en fékk aldrei það sama út úr þeim og skíðaíþróttinni. „Mér fannst sundið svo einhæft, fannst það ekki mjög skemmtilegt til lengdar. Mér finnst gaman að vera góð í einhverju,“ segir hún og hlær. „Pabbi var alltaf á skíðum og það var hans hugmynd að ég færi á skíði. Ég var komin á æfingar fjögurra ára.“
Hún hóf ferilinn hjá Haukum í Hafnarfirði, í lítilli skíðadeild sem þá var starfrækt. „Þetta var svona eins og lítil fjölskylda.“ Nú æfir hún með ÍR og hefur gert um árabil, auk þess að æfa erlendis.
Til að ná betri árangri fór til náms við skíðamenntaskóla í Noregi þegar hún var sextán ára. Hún segist hafa notið tímans og var þar í þrjú ár. „Mér fannst þetta góður tími. Þetta var erfitt fyrsta árið, það var erfitt að venjast þessu og ná tökum á því að vera á eigin vegum. Mamma kom með mér út og hjálpaði mér fyrst um sinn,“ segir hún. „Þetta var bæði skemmtilegur og erfiður tími,“ segir hún.
Faðir hennar hefur verið helsti stuðningsmaður hennar, en hefur tíðum gagnrýnt bæði Helgu Maríu, Skíðasambandið og landsliðsþjálfarann opinberlega. Allt hefur ratað í fréttirnar. Helga María segist vita hvaða stuðning hún hefur í föður sínum, þó að þau séu ekki endilega alltaf sammála um allt, hvað þá heldur nálgunina.
„Við erum ekki alltaf sammála og hann hefur farið svolítið aðrar leiðir en ég hefði helst kosið. Hann fer aðrar leiðir en aðrir myndu gera,“ segir hún. „Stundum á það sem hann segir rétt á sér og stundum ekki. Hann getur auðvitað verið harðorður. Hann segir allt og er ekkert að fínpússa það. En það má líka reikna með því að fólk taki því verr en hann meinar.“
Fjallað var um afar harðorða orðsendingu hans til Helgu Maríu á fréttavef DV fyrir nokkrum árum. Vilhjálmur, faðir hennar, hafði skrifað að árangur Helgu Maríu hefði verið ósannfærandi og var hann ósáttur við frammistöðu hennar og ætlaði ekki að horfa á næstu keppnisgrein hennar. Fjölmargir létu Vilhjálm heyra það og töldu hann ekki maklegan. Þeim fannst framkoma hans í garð Helgu Maríu ósanngjörn og fylktu sér að baki henni. Hún varð reyndar minnst vör við umfjöllunina enda sjálf erlendis að keppa og hafði um nóg annað að hugsa en uppþot á íslenskum vefmiðlum.
Helga María brosir þegar hún segist eiginlega varla hafa trúað því sem gerðist næst.
„Ég var að keppa erlendis og hafði lítinn aðgang að netinu. Þegar ég vaknaði næsta dag biðu mín tugir vinabeiðna og hundrað skilaboð frá fólki sem ég hafði aldrei heyrt minnst á. Ég skildi ekkert hvað var að gerast. Ég trúði þessu varla þegar ég fór að skoða þetta,“ segir hún, en þegar þetta gerðist var hún sautján ára gömul. „Þetta var óþægilegt, auðvitað. En ég var ekki að skíða vel, ég vissi það alveg. Ég hefði getað gert betur,“ segir hún.
„Þegar ég veit að það er satt þá velti ég því fyrir mér hvernig ég get bætt mig. Hann veit hvað ég get gert, eins og ég geri sjálf. Ég veit það sjálf og við vinnum saman í því að bæta þetta. Mér finnst kannski bara óþægilegt þegar aðrir heyra þetta, eins og þegar þetta fór á vefinn,“ segir hún og slær á létta strengi. Hún segist þakklát fyrir þann stuðning sem hún hefur frá foreldrum sínum, sem hafa í gegnum tíðina hvatt hana og aðstoðað eftir bestu getu. Faðir hennar fylgir henni oft í keppnisferðir og eins og áður sagði fór mamma hennar með henni út þegar hún flutti til Noregs.
Helga María er mjög einbeitt og afar efnileg og hefur allt til að vinna. „Ég vil koma hnénu í lag núna. Það er það sem ég stefni fyrst og fremst á. Þegar ég kem til baka og fer að keppa aftur þá ætla ég að komast lengra en ég var komin. Verða ennþá betri. Verða betri í styrk og snerpu. Komast lengra í fjallinu. Þeir bestu taka sénsa, þeir verða náttúrlega að gera það – ef þeir vilja eiga möguleika á að vinna.“