Fór í krossbandsaðgerð– „besta árið“ til að meiðast
Helga María Vilhjálmsdóttir skíðakona brunar niður fjallshlíðar á hundrað kílómetra hraða. Hún hefur verið ein besta skíðakona landsins um árabil og þrátt fyrir ungan aldur er árangur hennar til mikillar fyrirmyndar. Þetta er það sem henni finnst skemmtilegast og hún segist taka því mátulega alvarlega til að geta skíðað sem lengst. Hún treystir skíðunum betur en bílnum og er núna að temja sér þolinmæði á meðan hún jafnar sig eftir að hafa slitið krossband. Hún ræddi við Ástu Sigrúnu Magnúsdóttur um hraðann, æfingarnar og sinn helsta stuðningsmann, sem segir alltaf það sem honum dettur fyrst í hug.
Hún glímir núna við erfið meiðsl – er nýkomin úr aðgerð og hefur verið að jafna sig. Hún slasaðist í keppni í nóvember – sleit krossband – og fyrir vikið var hún úr leik það sem eftir lifir þessa tímabils. „Ég heyrði smellinn,“ segir hún um það hvernig hún slasaðist í miðri brekku. Hún segist samt ekki hafa áttað sig á alvarleika meiðslanna fyrr en viku seinna. „Þetta var svo skrítið, ég gat alveg gengið það sem eftir lifði þess dags og næstu daga. Svo fór ég til læknis rúmri viku seinna og þá kom í ljós að ég hafði slitið krossband,“ segir hún. Þetta ár var þó ágætt til þess að meiðast, ef svo má að orði komast enda eru Vetrarólympíuleikarnir ekki fyrr en eftir tvö ár og heimsmeistaramótið er á næsta ári. Hún hefur því tíma til að jafna sig og getur vonandi komist aftur á fullt skrið næsta ár. „Ég valdi tímann vel til að meiðast,“ segir hún glettin, þó að öllu gríni fylgi alvara, og segir að það sé auðvitað skelfilegt að orða þetta þannig. „Ég hafði verið svo heppin fram að þessu, hafði verið alveg heil. Það hlaut eiginlega að koma að þessu. Því miður.“
Hún stundar því styrktaræfingar núna til að halda sér í formi, enda stefnir hún ákveðin á góðan árangur á næsta tímabili. „Alla daga æfi ég efri líkamann og hnéð og fótinn til að styrkja hann. Það er langur tími sem fer í endurhæfinguna.“