Vetrarblað Veiðimannsins 2020-2021 kom út á föstudaginn og er nú á leið til félagsmanna og áskrifenda. „Menn eldast ekki þegar þeir eru við veiðar. Stundaglas þeirra er stöðvað á meðan.“ Þetta er vel að orði komist hjá Víglundi Möller sem var ristjóri Veiðimannsins í 34 ár.
Á 80 ára afmælisári Veiðimannsins bregðum við upp svipmynd af þessum merkilega manni sem á ríkan þátt í að saga stangveiða á Íslandi hefur verið skráð í gegnum tíðina og skemmtilegar veiðisögur sagðar áratugum saman.
Í vetrarblaði Veiðimannsins er víða komið við. Í blaðinu er m.a. birt í heild veiðistaðalýsing Sandár í Þistilfirði, dulúðlegrar ár, sem ekki hefur verið á almennum veiðimarkaði til þessa. Magnús Ólafsson, sem einnig var ritstjóri Veiðimannsins skrifaði lýsinguna og stendur hún enn þann dag í dag vel fyrir sínu. Nákvæm og litskrúðug og nauðsynleg fyrir hvern þann sem vill upplifa leyndardóma Sandár og veiða vel. Í blaðinu ræðum við einnig við Stefán Magnússon, son Magnúsar, um helstu hylji Sandár og rifjum upp eftirminnilega veiðisögur.
Andakílsá átti magnaða endurkomu síðastliðið sumar sem Veiðimaðurinn rýnir í ásamt því að spá í lífríkið með vísindamönnum og veiðihorfur næsta sumars. Stórlaxaflugan Jock Scott er kynnt til leiks á nýjan leik og ekki síður girnilegar púpur Sigurþórs Ólafssonar sem sjóbirtingar eiga erfitt með að standast. Ýmislegt fleira fróðlegt er í Veiðimanninum sem hefur frætt og kætt fjölmargar kynslóðir stangveiðimanna í 80 ár. Það styttist í veiðisumarið 2021!