,,Við vorum að koma úr okkar árlegu veiðiferð í Veiðivötnum og þetta er alltaf jafn skemmtilegt,“ sagði Kristján Jóhannsson stórsöngvari sem var að koma úr veiði ársins. Kristján var að ganga frá aflanum þegar Veiðipressan heyrði í honum.
,,Þetta er tuttugasta árið sem við fórum að veiða þarna. Við fengum 40 fiska og ég veiddi þann stærsta. Þetta getur ekki verið betra. Þessi stóri var 8 pund. Það var rjómablíða allan tímann nema einn dagpart en þá haugrigndi. Bryndís og Rúnar við Veiðivötnin eru alltaf jafn yndisleg og taka vel á móti öllum,“ sagði Kristján ennfremur. Veiðst hefur vel á svæðinu en vötnin hafa gefið 9300 fiska í það heila í sumar.