,,Það hefur verið hellingur að gera hjá okkur síðustu daga. Veiðimenn eru að koma sér í gírinn þessa dagana. Enda er ekki eftir neinu að bíða og verðurfarið er að batna,“ sagði Ingólfur Kolbeinsson í Vesturröst og í sama streng tók Tommi í Veiðiportinu.
,, Það hefur fínt að gera,“ sagði Tómas Skúlason um leið og hann afgreiddi mann með veiðistöng og hjól. Fleiri viðskiptavinir biðu. Ég lét mig hverfa.
Í fleiri veiðibúðum er sömu sögu að segja. Skrítin staða í þjóðfélaginu þessa dagana og veiðimenn í sömu stöðu núna og þegar kálfunum er hleypt út á vorin. Þeir geta alls ekki beðið lengur, sama hvað þeir reyna.
,,Já, maður verður að taka hrollinn úr sér hérna við Vífilsstaðavatn, get bara alls ekki beðið lengur,“ sagði veiðimaður við vatnið í vikunni.
Líklega hafa aldrei fleiri hnýtt sér flugur í vetur og aldrei meira en núna eftir áramótin, Veiðikortið selst eins og heitar lummur þessa dagana. Allir vilja ná sér í kortið og æfa sig fyrir skrítnasta veiðisumar fyrr og síðar, bara þess vegna getur enginn beðið.
Vorveiðin hefur gengið ágætlega, veðurfarið er að batna og það er fyrir öllu. Slæmur vetur er að baki og veiru helvítið hefur aðeins bakkað. En það þarf meira til, þess vegna er gott að skjótast með stöngina og taka nokkur köst. Það vita flestir.