Veiðin gekk bara ágætlega fyrsta daginn sem mátti veiða þrátt fyrir frekar leiðinlegt veðurfar og kulda. Erfitt er að henda reiður á aflatölur þennan fyrsta dag en líklega hafa veiðst á milli 150 og 200 fiskar.
,,Við enduðum í 34 fiskum þennan fyrsta dag sem verður að teljast mjög gott,“ sagði Harpa Hlín Þórðardóttir en hún og eiginmaður hennar Stefán Sigurðsson byrjuðu veiðisumarið með látum í Leirá í gærdag sem þau líklega þekkja betur en hvort annað.
,,Fiskarnir veiddust vítt og breitt en mest neðarlega í ánni. Stærsti fiskurinn sem kom á land var 82 sentimetra og hnöttóttur. Þetta var verulega skemmtileg byrjun á veiðisumrinu,“ sagði Harpa ennfremur.
Það er spáð klóandi næstu daga en fiskurinn er ennþá fyrir hendi og hann tekur þrátt fyrir kulda og trekk. Það er það góða í veiðinni núna og hann er vænn í bland.