,,Þetta er auðvitað bara orðið bull með veðurfarið, ekki dropi í þrjá mánuði víða og svo ekkert nema rigning. Maður kemur ekki niður færinu lengur fyrir vatni. Þetta er annað hvort í ökkla eða eyra,“ sagði veiðimaður sem keyrði vestan úr Dölum og suður fyrir heiðar. Hann hafði reyndar fengið 5 laxa í sumar sem verður að teljast gott miðað við aðstæður og vatnsleysi.
,,Laxá i Dölum er eins og stórfljót eins og Haukadalsá þessa dagana. Norðurá sem var að þorna upp á tímabili í sumar var orðin 270 rúmmetrar í morgun. Þetta er auðvitað með ólíkindum allt saman,“ sagði veiðimaðurinn í spjalli við Veiðipressuna.
Veiðimaðurinn var reyndar stangarlaus og sá allt of mikið af vatni alla leiðina í bæinn sem getur verið erfitt eftir allan þurrkinn í sumar, viku eftir viku.
Laxveiðin er að detta út en sjóbirtingurinn er ennþá og gengur víða vel nema þar sem er allt of mikið vatn og enginn kemur niður færi fyrir vatnsflaumi.
Mynd. Svona leit Laxá í Dölum út í morgun. Myndin er tekin af síðunni hjá Hreggnasa.