Eitt sinn var sagt að ekkert gerðist ef það kæmi ekki í Mogganum. Ef það væri rétt árið 2018 þá væri Stöð 2 ekki lengur til. Frá því elstu menn á miðjum aldri muna þá hefur alltaf verið hægt að nálgast sjónvarpsdagskrána í Mogganum og hefur hún haldist eins í áraraðir, bæði uppsetningin og reyndar dagskráin sjálf. Þegar menn fluttu Mogganum á kaffistofunni ráku menn augu í að dagskrá Stöðvar 2 er ekki lengur í Mogganum.
Fram til þessa hefur verið komið jafnt fram við allar sjónvarpsstöðvar í Mogganum, meira að segja þegar Mogginn og fyrirtækið á bak við Stöð 2 var í hörðum deilum, þá var samt alltaf dagskráin á sínum stað.
Það er heldur ekki hægt að segja að þetta sé gert vegna þess að sívaxandi hluti þjóðarinnar er að snúa baki við línulegri dagskrá og færa sig yfir á Netflix. Í stað dagskrár Stöðvar 2 og Stöðvar 2 Sport er ítarlega greint frá því hvað er í boði á Rás 1. Það vekur einnig spurningu hvers vegna RÚV er á sínum stað, en Staksteinar blaðsins eru duglegir við að halda því fram að um sé að ræða ríkisrekinn áróðursmiðil vinstrimanna. Þeir vilja greinilega frekar að lesendur horfi á það en Stöð 2.