Elín Björg Ragnarsdóttir, lögmaður og fv. framkvæmdastjóri Samtaka fiskframleiðenda og útflytjenda, skrifar grein í Morgunblaðið sem vakti mikla athygli á Kaffistofunni í morgun. Þar talar hún um að Helgi Seljan á RÚV hafi tekið við sig viðtal á fölskum forsendum. Hún hafi í janúar 2012 rætt við hann um samkeppnislega mismunun í innlendri fiskvinnslu og nauðsyn aðskilnaðar veiða og vinnslu.
„Þegar leið á viðtalið fjallaði ég einnig lítillega um möguleika fyrirtækja sem hefðu alla virðiskeðjuna á eigin hendi til að taka arð af auðlindinni út í erlendu fyrirtæki. Tók ég skýrt fram að slíkt fyrirkomulag væri löglegt og ef menn vildu breyta þessum leikreglum yrði að breyta löggjöfinni. Ég gagnrýndi því löggjöfina en ekki eitt einasta fyrirtæki sem nýtti sér þessa glufu, þrátt fyrir að Helgi Seljan hefði ítrekað reynt að fá mig til að nefna eitt eða fleiri af stóru útgerðarfyrirtækjunum,“ segir Elín.
Síðan hafi viðtalið ekki birst og hún haldið að því hafi verið slaufað. Síðan í lok mars hafi hún séð sjálfa sig tala um möguleika fyrirtækja til að taka út arð í erlendu fyrirtæki í tengslum við húsleit Seðlabankans, Tollstjóra og Sérstaks saksóknara á skrifstofum Samherja.
—
RÚV hafði eftir Elínu árið 2012:
„Eins og við sjáum oft getur fyrirtækið líka átt erlent sölufyrirtæki og selt áfram á lágmarksverði frá fiskvinnslunni yfir í erlenda fyrirtækið – sölufyrirtækið, og tekið út arðinn af allri greininni út í erlenda fyrirtækinu. Og hvort menn eru að leika þennan leik læt ég ósagt en allavega möguleikinn er þarna til staðar. Og auðvitað ættu menn að skoða þetta.“
—
Elín segir að hún hafi verið slegin vegna þessa og hvorki Páll Magnússon útvarpsstjóri né Kastljós hafi svarað tölvupóstum frá henni.
„Þarna misnotaði Kastjós gróflega viðtal við mig, fleygði mér inn í harkalega samfélagsumræðu án þess að ég hefði hugmynd um það fyrr en skaðinn var skeður. Þurfti ég að auki að sæta því næstu vikur og mánuði að heyra glósur um að ég hefði beinlínis verið upphafsmaður að málinu með því að koma á framfæri upplýsingum sem leiddu til rannsóknar á Samherja o.fl.“
Segir hún einnig að þú þegar umræðan um Seðlabankann og Samherja sé aftur komin af stað þá hafi aftur blossað upp umræðu að aðkomu sína að þessu máli, vill hún því fá síðbúna afsökunarbeiðni frá RÚV.
—
Einn molakaffisötrari spurði hver væri eiginlega vondi kallinn í þessu.
RÚV? Sem vissulega hefði mátt taka fram að Elín hefði ekki verið að tala um Samherja eða húsleitina.
Eða hinir? Þeir sem komu með glósurnar, sökuðu Elínu um að vera upphafsmaður málsins og sneru við henni baki.
Það kann að vera að Elín hefði ekki treyst sér til að leita til annarra fjölmiðla á sínum tíma til að koma þeim skilaboðum á framfæri að RÚV hefði tekið orð sín úr samhengi. Lítið við því að gera núna.
En. Það er hins vegar hægt að opna umræðuna um það að einhver megi ekki segja neitt, ekki einu sinni úr samhengi, um valdamikla aðila án þess að fá að heyra háðsglósur um sig og fá að upplifa útskúfun. Það er öllu alvarlegra mál.