Ríkisútvarpið segir venjulega ekki frá gjaldþrotum fólks eða fyrirtækja, nema um sé að ræða eitthvað stórfellt sem erindi á við almenning. Þess vegna urðu margir undrandi í vikunni þegar Fréttastofa RÚV sagði frá því í tveimur fréttum, annarri á íslensku en hinni á ensku, að hundaræktunin í Dalsmynni hefði orðið gjaldþrota og kröfur í búið næmu á þriðju milljón króna.
Slíkt gjaldþrot er í fyrsta lagi með því allra minnsta sem þekkist svo erfitt er að átta sig á því hvers vegna ástæða var til þess að gera frétt um það, hvað þá á tveimur tungumálum.
Ragnar Önundarson bankamaður gerði þetta að umtalsefni á Facebook og benti á að Ríkisútvarpið setti jafn mikið pláss í gjaldþrot hundaræktarinnar og hjá fjárfestingafélögum með tuga, jafnvel hundruð milljarða gjaldþrot.