Nú þegar nokkrir dagar eru liðnir frá kosningunum, hefur stjórnmálaspekingum gefist kostur til að rýna í úrslitin úr ákveðinni fjárlægð og bera saman við fyrri tíð. Margt kemur þá áhugavert í ljós, en væntanlega ber þar hæst ótrúlegt fylgishrun Vinstri grænna. Fylgishrun sem í reynd felur í sér stórpólitísk tíðindi.
Tökum bara höfuðborgina Reykjavík sem dæmi. Þar á bæ var Katrín Jakobsdóttir oddviti í síðustu kosningum og varð svo forsætisráðherra í samstjórn Vinstri grænna með Sjálfstæðisflokki og Framsókn.
Á þeim fáu mánuðum sem liðnir eru hefur fylgið gersamlega tæst af Vinstri grænum. Hvern einasta mánuð, hverja einustu viku, hvern einasta dag.
Látum tölurnar tala sínu máli:
Í Alþingiskosningum fékk VG samtals 14.477 atkvæði í Reykjavík suður og norður. Ári síðar, fékk VG samtals 2.700 atkvæði í borgarstjórnarkosningunum.
Þetta er algjörlega ótrúlegt fylgishrun. Á áðeins örfáum mánuðum hafa fjórir af hverjum fimm kjósendum Vinstri grænna yfirgefið flokkinn. Varla eru til mörg dæmi um jafn rosalegt fylgishrun í samanlagðri stjórnmálasögu landsins.
Þetta er þeim mun athyglisverðara, að Vinstri græn fara með stjórn landsmála gegnum forsætisráðherraembættið og borgarfulltrúinn Líf Magneudóttir ræður með atkvæði sínu miklu um hvers konar meirihluta á að mynda í borgarstjórn Reykjavíkur.
Í reynd ættu þessi úrslit að hafa orðið til þess að Vinstri græn dragi sig í hlé og leggist í allsherjar naflaskoðun, því kjósendur hafa sent um það skýr skilaboð. Ótrúlegt er annað en þingmenn velti fyrir sér umboði forsætisráðherrans, heilbrigðisráðherrans, forseta þingsins og umhverfisráðherrans við þessar aðstæður.