Á kaffistofuna hafa þau tíðindi borist að nokkur titringur sé innan Háskóla Íslands og skipulagsbreytingar í gangi varðandi MBA-nám innan Háskólans.
Magnús Pálsson, sem stýrt hefur MBA-náminu um árabil, er hættur og við starfi hans tekur líklega (að minnsta kosti tímabundið) Jakob Ásmundsson lektor.
Jakob er þekktur fyrir að hafa gengið út úr forstjórastólnum hjá Straumi með ríflega milljarð króna í sinn hlut, en hann hefur sinnt kennslu í Háskólanum að undanförnu, enda hámenntaður — með doktorsgráðu í iðnaðarverkfræði.
Hann sagði sig óvænt úr stjórn Arion-banka á dögunum eftir að hafa gengið fram af fólki í veislu á vegum bankans.
„Þar sagði ég hluti sem eru mér ekki samboðnir og kvartað var yfir,“ sagði Jakob í yfirlýsingu, þar sem hann sagðist hafa drukkið of mikið áfengi og farið yfir strikið í samskiptum við viðskiptavini og starfsfólk bankans.