Það eru væringar á fjölmiðlamarkaði, um það þarf vart að fjölyrða. Líkast til mun miðlum halda áfram að fækka hér á landi á næstu misserum.
Eitt þekktasta vikublað þjóðarinnar, sem ekki kemur þó lengur út, var Helgarpósturinn. Allir á Kaffistofunni muna eftir að það blað skók stoðir samfélagsins eins og sagt var fyrr á tíð, frægast auðvitað í Hafskipsmálinu.
Athygli vekur að útvarpsdrottningin Arnþrúður Karlsdóttir, sem kennd er við Útvarp Sögu, er eigandi vörumerkisins Helgarpósturinn. Hefur heyrst af útgáfupælingum hennar undanfarið, enda nokkuð sótt að stöðinni sem á sér þó sinn fasta aðdáendahóp.
Lénið helgarposturinn.is er hins vegar ekki eign Arnþrúðar. Þegar rýnt er í gögn Isnic kemur í ljós að eigandi lénsins er enginn annar en Jón Kaldal, fyrrverandi ritstjóri Fréttablaðsins og síðar Fréttatímans.
Spurningin er hvort þeirra verður á undan að endurvekja gamla góða Helgarpóstinn.