Hrafn Jökulsson er þekktur rithöfundur og baráttumaður fyrir góðum málstað, eins og þjóð veit.
Bók hans um lífið á Ströndum, Þar sem vegurinn endar, kom til tals á kaffistofunni þegar rætt var um eldhúsdagsumræðurnar á þingi nýverið, þar sem Bergþór Ólason þingmaður Miðflokksins talaði í gátum er hann sendi Framsóknarflokknum væna sneið í umræðum um samgöngumál.
Bergþór sagði:
„Kæru landsmenn. Þann 27. apríl ákvað ríkisstjórnin að ganga á varasjóð vegna óvæntra atburða og setja helming hans, 4 milljarða, í viðhald og uppbyggingu vega. Athugið: Varasjóð vegna óvæntra atburða. Ef ástand vegakerfisins var í huga þeirra sem við ríkisstjórnarborðið sitja óvæntur atburður bið ég alla haghafa að krossa sig.“
Uppskar þingmaðurinn við þessi orð nokkurn hlátur í þingsal, enda ekki leyndarmál að ástand vega í þéttbýli og dreifbýli sé með ömurlegasta móti. Benti Bergþór á að þetta fjármagn og miklu meira til þyrfti í nauðsynlegar bráðaaðgerðir.
Svo sagði þingmaðurinn:
„Þegar þessir 4 milljarðar höfðu fallið af himnum ofan hófst útdeilingin. Skemmst er frá því að segja að hún fór að uppistöðunni til í framkvæmdir á Suðurlandi, í kjördæmi hæstv. samgönguráðherra, svo ég taki sem dæmi: Á Vesturlandi fer fjármagnið að meginhluta til í framkvæmdir við vegaspotta sem er ágætur sem slíkur en er fjarri því að vera efstur á forgangslista sveitarfélaganna á svæðinu. Til gamans er skemmtileg tilviljun að sjá hvar í Dölunum malbikið endar.“
Svo mörg voru þau orð. Þingmenn fóru auðvitað strax að kanna við hvað Bergþór ætti þarna og ekki leið á löngu þar til svarið lá fyrir. Í ákvörðun samgönguráðherra felst nefnilega, að á Vesturlandi fara 200 milljónir í Dalasýslu í bundið slitlag um Laxárdal, milli Grafar og Lambeyra.
Og hver skyldi nú búa á Lambeyrum annar er faðir Ásmundar Einars Daðasonar félagsmálaráðherra, þar sem þeir feðgar hafa átt í sameiginlegum búskap.
Já, það sannast á þingi og í ríkisstjórn sem annars staðar, að það er jafnan gott að eiga góða að…