Stjórnendur stóru skipafélaganna eru í djúpum sjó í samráðsmálunum svokölluðu. Embætti héraðssaksóknara hefur rannsakað mál Eimskips og Samskipa í nokkur ár og við yfirheyrslur á dögunum var fjórum æðstu stjórnendum félaganna tilkynnt að þeir hafi nú réttarstöðu sakbornings.
Gengi Eimskipa hefur fallið töluvert í Kauphöllinni eftir að félagið skýrði frá þessum tíðindum í tilkynningu til Kauphallarinnar og Markaður, viðskiptablað Fréttablaðsins, segir í nafnlausum dálki í dag að stjórnendur félagsins geti sjálfum sér um kennt, ekki sé ólíklegt að félaginu hafi borið skylda til að tilkynna þetta strax en ekki fela inni í afkomutilkynningu nokkrum dögum síðar.
Ljóst er að stjórnendur skipafélaganna þurfa að íhuga næstu skref vandlega. Til að byrja með ættu þeir að fá til liðs við sig öflugri ráðgjafa í krísustjórn og almannatengslum því þar á bæ sýnist töluvert pláss fyrir aukin gæði, svo vægt sé til orða tekið.