Eina stærstu frétt vikunnar má finna í nýrri bók Þórðar Snæs Júlíussonar, Kaupthinking, bankinn sem átti sig sjálfur.
Eins og allir helstu fjölmiðlar landsins hafa greint frá í morgun telja starfsmenn skattrannsóknarstjóra að Bakkavararbræðurnir Ágúst og Lýður Guðmundssynir séu eigendur aflandsfélagsins Dekhill Advisores Ltd. Þetta kemur einmitt fram í bók Þórðar.
Dekhill Advisors hagnaðist um milljarða þegar Búnaðarbankinn var einkavæddur fyrir fimmtán árum. Eftir hrunið sögðust bræðurnir ekkert kannast við félagið þegar rannsóknarnefnd Alþingis skoðaði málið.
Það sem vekur nokkra athygli er að Þórður Snær gaf Morgunblaðinu skúbbið. Morgunblaðið birti fréttina á forsíðu sinni í morgun en nokkuð löngu síðar birtist fréttin á vef Kjarnans – upp úr bók Þórðar, ritstjóra Kjarnans.
Undir venjulegum kringumstæðum keppast fjölmiðlar um að vera fyrstir með fréttirnar. Það virðast þó vera undantekningar á því eins og þetta dæmi sýnir.