Við Íslendingar erum fólk tarna og vertíðar, eins og kunnugt er. Annað hvort er allt í ökkla eða eyra hjá okkur. Eftir fádæma uppgang og góðæri tengt ferðaþjónustunni virðist þannig komið að skuldadögum og timburmönnum heldur leiðinlegum.
Í viðskiptalífinu er fullyrt að á næstu mánuðum verði stórtíðindi tengd ferðaþjónustu. Fyrirtæki muni sameinast, önnur fara lóðbeint á hausinn. Veitingastöðum mun fækka til mikilla muna, það er einfaldlega komið allt of mikið af þeim í þessu litla landi.
Það þykir staðfesta þennan orðróm að stjórnendur Icelandair Group vilji nú selja hótelarminn úr úr samstæðunni. Þar á bæ eru menn logandi hræddir við aðsteðjandi samdrátt. Í Viðskiptablaðinu á dögunum sagði Birgir Ómar Haraldsson, einn eigenda Norðurflugs:
„Ég held að við séum að horfa fram á allt annað umhverfi og miklar breytingar í ferðamannageiranum hérna í haust. Við Íslendingar erum náttúrulega búnir að vera gráðugir eins og andskotar.“
Svo mörg voru þau orð.