Ólafía Þórunn Kristinsdóttir er úr leik á KPMG risamótinu á LPGA mótaröðinni. Mótið fer fram í Kildeer í Illinois-fylki rétt við borgina Chicago í Bandaríkjunum.
KPMG meistaramótið er eitt af fimm risamótum hvers árs hjá atvinnukylfingum í kvennaflokki.
Ólafía Þórunn lék á +4 samtals (73-75) og var hún einu höggi frá því að komast áfram á lokahringina tvo.
Mótið fer fram á Kemper Lakes Golf Club og aldrei áður hefur keppnisvöllur í 64 ára sögu mótsins verið eins langur. Völlurinn er 6.741 stikur eða 6.163 metrar. Til samanburðar þá er Grafarholtsvöllur í Reykjavík 6.057 metrar af hvítum teigum eða öftustu teigum.
Danielle Kang hefur titil að verja á mótinu en aðeins fimm kylfingar hafa náð að verja titilinn á þessu móti. Mickey Wright (1960-61); Patty Sheehan (1983-84); Juli Inkster (1999-2000); Annika Sorenstam (2003-05); og Inbee Park (2013-15).
Alls eru 156 keppendur sem taka þátt og þar af eru 24 leikmenn að keppa í fyrsta sinn á þessu risamóti. Ólafía Þórunn keppti í fyrra á þessu móti og var hún þá fyrsti íslenski kylfingurinn sem keppti á risamóti í golfi á atvinnumótaröð.