Ólafía Þórunn Kristinsdóttir lék vel á fyrsta keppnisdeginum á CP-meistaramótinu á LPGA mótaröðinni sem fram fer í Kanada. Mótið hófst 23. ágúst og stendur fram til 26. ágúst. Leikið er á Wascana vellinum í Regina og lék Ólafía á -4 eða 68 höggum. Hún er í 18. sæti eftir fyrsta hringinn. Ólafía fékk alls fjóra fugla, einn örn og tvo skolla á hringnum í gær. Besta skorið er -8 en þrír kylfingar eru jafnir í efsta sæti á því skori.
Eins og staðan er núna þá er Ólafía í sæti nr. 139 á peningalista LPGA mótaraðarinnar.
Ólafía þarf að vera á meðal hundrað efstu til að halda keppnisréttinum á næsta tímabili, en verði hún í sætum 101-125 í lok tímabilsins, fær hún takmarkaðan keppnisrétt á næsta tímabili.
Þá þarf hún samt sem áður að fara í gegnum úrtökumót fyrir mótaröðina í desember, verði hún í sætum 101-125.