Fjórir íslenskir atvinnukylfingar eru á meðal keppenda á Evrópumóti í liðakeppni atvinnukylfinga sem fram fer á Gleneagles vellinum í Skotlandi dagana 8.-12. ágúst.
Alls eru 16 þjóðir sem taka þátt og er hvert lið skipað tveimur leikmönnum.
Axel Bóasson (GK) og Birgir Leifur Hafþórsson (GKG) eru saman í liði. Ólafía Þórunn Kristinsdóttir (GR) og Valdís Þóra Jónsdóttir (GL) eru saman í liði. Í lokaumferðinni verða liðin síðan skipuð einum karli og einni konu.
Birgir Leifur og Axel hafa unnið báðar viðureignir sínar til þessa. Þeir leika til úrslita um laust sæti í undanúrslitum mótsins gegn Noregi í lokaumferðinni. Birgir og Axel lögðu Belgíu og Ítalíu í fyrstu tveimur umferðunum.
Valdís Þóra og Ólafía Þórunn fengu þrjá fugla í röð á síðustu þremur holunum í viðureign þeirra gegn Finnlandi. Íslensku atvinnukylfingarnir náðu að jafna við Finnland og lönduðu 1/2 vinningi. Valdís og Ólafía töpuðu fyrsta leiknum í riðlakeppninni.